Karlalið Vals í handbolta er lið ársins 2022 í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna. Frá þessu var greint við hátíðlega athöfn í Hörpu í kvöld.
Valsmenn eru ríkjandi Íslands-, deildar- og bikarmeistarar og farið vel af stað í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í haust.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta endaði í 2. sæti kjörsins. Liðið vakti mikla athygli í upphafi árs en liðið endaði í 6. sæti á Evrópumóti landsliða þrátt fyrir mikil skakkaföll vegna COVID-19 veirunnar sem lék liðið grátt. Íslenska landsliðið var grátlega nálægt því að komast í undanúrslit mótsins.
Kvennalandslið Íslands í fótbolta endaði í 3. sæti í kjörinu. Kvennalandsliðið keppti á Evrópumótinu sem fór fram á Englandi fyrr á árinu og tapaði ekki leik í riðlakeppninni. Hins vegar dugðu þrjú jafntefli liðinu ekki til þess að komast upp úr riðlinum. Þá var liðið mjög nálægt því að komast á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu, tap gegn Portúgal í umspilsleik um laust sæti á mótinu gerði hins vegar út um vonir liðsins.
Lið ársins 2022
1. Valur, meistaraflokkur karla í handbolta – 111
2. Íslenska karlalandsliðið í handbolta – 85
3. Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta – 19
4. Valur, meistaraflokkur kvenna í fótbolta – 16
5. Breiðablik, meistaraflokkur karla í fótbolta – 16
6. Íslenska karlalandsliðið í körfubolta – 14
7. Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum – 11
8. Njarðvík, meistaraflokkur kvenna í körfubolta – 7