Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta er þjálfari ársins 2022 í kjöri Samtaka Íþróttafréttamanna. Frá því var greint við hátíðlega athöfn í Hörpu í kvöld.
Undir stjórn Þóris varð norska landsliðið Evrópumeistari í handbolta nú undir lok árs og um leið setti Þórir heimsmet með því að verða sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar í íþróttinni.
Alls hefur Þórir stýrt liði til sigurs á stórmóti í handbolta níu sinnum.
Annar í kjöri á þjálfara ársins 2022 var Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta. Undir stjórn Snorra vann Valur alla titla hér heima á árinu. Þá hefur framganga liðsins í riðlakeppni Evrópudeildarinnar vakið mikla athygli en þar hafa Valsmenn verið að leika mjög vel.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu varð þriðji í kjörinu. Undir stjórn Óskars varð Breiðablik Íslandsmeistari á tímabilinu 2022 í Bestu deild karla.
Þjálfari ársins 2022:
1. Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta – 138
2. Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta – 82
3. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta – 23
4. Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta – 23
5. Pétur Pétursson, þjálfari kvennaliðs Vals í fótbolta – 7
6. Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í körfubolta – 4
7. Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í fótbolta – 1
8. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari karlaliðs Vals í körfubolta – 1