Berglind Ósk sakar Auði Jónsdóttur um að nota „menningarauðmagn“ sitt til að bæla niður gagnrýni gegn sér. Þetta kemur fram í pistli Berglindar á vefsíðu hennar en þar svarar hún pistli Auðar frá því í gær sem vakti mikla athygli og sterk viðbrögð.
Málið á upptök sín í gagnrýni Berglindar á efnisval í afar veglegu bókablaði Stundarinnar sem þrjú tölublöð hafa verið gefin út af. Gagnrýndi Berglind þann svip ættartengsla og klíkuskapar sem hún taldi vera á blaðinu og kallaði þær Auði og Kamillu Einarsdóttur, sem skrifar mikið í blaðið, kúlturbörn. Auður Jónsdóttir er barnabarn nóbelsskáldsins Halldórs Laxness og Kamilla er dóttir Einars Kárasonar, eins vinsælasta rithöfundar þjóðarinnar.
Auður birti langan pistil í gær þar sem hún sagði að skrif Berglindar jöðruðu við að vera ærumeiðingar.
Þessu hafa verið góð skil í nokkrum fréttum en þess skal getið að Auður fór nokkrum orðum um stöðu Berglindar, sem er tiltölulega nýtt nafn í bókmenntaheiminum:
„Í ljós kom að konan er öflugur forritari með rekstur við að aðstoða fyrirtæki með textagerð, búin að vera edrú lengi og kærasta eins kröftugasta rithöfundar þjóðarinnar. Auk þess var hún þá búin að fá eins marga dóma og Ólafur Jóhann og búin að vera í Kiljunni, og útskrifuð úr ritlist við Háskóla Íslands. Í viðtalinu kom þetta hins vegar út eins og ég, spillti nóbelserfinginn væri að hamast á brotinni konu sem kæmist ekki að út af fólki eins og mér.“
Berglind hefur nú svarað Auði með hvössum pistli á vefsíðu sinni. Hún segir við Auði:
Þú getur rakið sorgarsögu þína þar til þú ert blá í framan og þóst vita eitthvað um líf mitt. Þú ert samt kúltúrbarn. Það skiptir engu máli hvort ég sé edrú eða ekki, hvort ég sé með rekstur (ég vinn sem frílansari) eða sé einstæð móðir. Þú ert samt kúltúrbarn. Það skiptir ekki máli að þú og Kamilla séu einstæðar mæður. Þið eruð samt kúltúrbörn. Hver gaf þér annars leyfi til að deila þinni útgáfu af mínu lífi með tæplega 5000 fylgjendum á Facebook og er svo pikkað upp af fjölmiðlum?
Berglind segir að það sé val Auðar að taka gagnrýni hennar persónulega. „Þú ert vinsæll metsöluhöfundur með hrúgu af verðlaunum og viðurkenningum, af hverju stendurðu bara ekki með þér og ferð ekki í kerfi þegar bókmenntablað sem þú ritstýrir er gagnrýnt.“
Berglind bendir á að umræðan um kúltúrbörn sé ekki persónuleg árás á Auði né önnur kúltúrbörn. Þetta sé málefni sem heimurinn vilji ræða en Auður sé ófær um þá umræðu.
Pistill Berglindar er eftirfarandi í heild:
Kæra Auður, svo við erum ekki að fara að skrifa bók saman eftir allt?
Þú getur rakið sorgarsögu þína þar til þú ert blá í framan og þóst vita eitthvað um líf mitt. Þú ert samt kúltúrbarn. Það skiptir engu máli hvort ég sé edrú eða ekki, hvort ég sé með rekstur (ég vinn sem frílansari) eða sé einstæð móðir. Þú ert samt kúltúrbarn. Það skiptir ekki máli að þú og Kamilla séu einstæðar mæður. Þið eruð samt kúltúrbörn. Hver gaf þér annars leyfi til að deila þinni útgáfu af mínu lífi með tæplega 5000 fylgjendum á Facebook og er svo pikkað upp af fjölmiðlum?
Það er þitt val að taka þessu svona persónulega, eins og ég hefði sagt að þú værir slæmur rithöfundur, ég hef aldrei sagt hvað mér finnst um það. Þú ert vinsæll metsöluhöfundur með hrúgu af verðlaunum og viðurkenningum, af hverju stendurðu bara ekki með þér og ferð ekki í kerfi þegar bókmenntablað sem þú ritstýrir er gagnrýnt.
Þú talar um ærumeiðingar, var það kafli í bókinni þinni um tjáningarfrelsi? Að þegar ungur rithöfundur sem er að fóta sig í bókmenntaheiminum gagnrýnir valdafólk, séu það ærumeiðingar? Nú skil ég betur af hverju rithöfundar þora ekki að gagnrýna neitt í okkar geira – út af viðbrögðum eins og þínum og hvernig þú notar „menningarauðmagn” þitt til að kæfa gagnrýni.
Umræðan um kúltúrbörn er ekki persónuleg herferð gegn þér eða öðrum kúltúrbörnum sem hafið baköpp í meðfæddu menningarauðmagni (btw, fólk eins og ég sem stend fyrir utan bókmenntaelítuna vissi ekki fyrr en nýlega hvað þetta háfleyga orð þýðir. Eitt dæmi um gjá sem kúlturbarn sér ekki. Fyrir ykkur sem skiljð þetta ekki, þá þýðir þetta það menningarlega ríkidæmi og vald sem fólk hefur – og sem kúltúrbörn fæðast með og aðrir geta að einhverju leyti unnið sér inn – nú eða keypt sér, með því að komast að í menningunni og öðlast virðingu). Heimurinn vill ræða þetta, þótt þú virðist vera ófær um það.