Þetta er mat Mette Skak, lektors í stjórnmálafræði við Árósaháskóla, og Jacob Kaarsbo, sérfræðings hjá hugveitunni Tænketanken Europa. TV2 ræddi við þau um hvernig þau telji að stríðið þróist á næsta ári.
Skak sagði að það sé hennar mat að horfa verði á Úkraínu eins og við horfum á lönd þar sem átök eru daglegt brauð. „Maður þarf að venja sig við að horfa á Úkraínu sem einhverskonar evrópskt Ísrael,“ sagði hún.
Í grein eftir Kaarsbo, sem birtist á vef Tænketanken Europa, dregur hann upp sex sviðsmyndir sem hann telur líklegar í stríðinu næstu fjóra til sex mánuði. Hann segist telja að á næstu tveimur mánuðum verði blanda af tveimur af þessum sviðsmyndum raunveruleikinn. Kyrrstaða í stríðinu og vetrarsókn Úkraínumanna.
BBC ræddi við fimm sérfræðinga sem bentu á fimm mismunandi sviðsmyndir um hvernig stríðið getur þróast á næsta ári. Þrír þeirra telja litlar líkur á að stríðinu ljúki á næstunni. Barbara Zanchetta, hjá Kings College í Lundúnum, sagði að því miður verði áfram um langvarandi baráttu að ræða á pólitíska og efnahagslega sviðinu auk baráttu á vígvellinum. Hún sagði líklegt að stríðið standi enn yfir eftir ár.
En Andrei Piontkovsky, sérfræðingur sem starfar í Washington, sagði ekki útilokað að Úkraína muni sigra í stríðinu á nokkrum mánuðum og muni hafa náð landi sínu úr höndum Rússa í vor.
Ben Hodges, fyrrum yfirmaður bandaríska heraflans í Evrópu, er sama sinnis og telur að Úkraínumenn muni sigra í stríðinu á næsta ári. Hann sagðist ekki vera í neinum vafa um það.