Málið virðist vera ansi sérstakt og telur lögreglan að foreldrar Madalina hafi ekki sagt alla söguna.
„Þetta er alvarlegt mál er varðar barn sem á foreldra sem segja okkur greinilega ekki allt sem þeir vita.“
Þetta segir Jennifer Thompson, lögreglustjóri, í myndbandi sem lögreglan birti á Facebooksíðu sinni.
„Við vitum að mörg ykkar vilja fá svör við ýmsum spurningum, það viljum við líka. Við gerum allt sem við getum til að fá þessi svör,“ segir hún einnig.
Tvær mikilvægustu spurningarnar í málinu eru:
Hvar er Madalina Cojocari?
Af hverju liðu næstum þrjár vikur þar til foreldrar hennar tilkynntu um hvarf hennar?
Thompson segir að eitt það erfiðasta við málið sé að lögreglunni var ekki gert viðvart um hvarf Madalina fyrr en eftir þrjár vikur en foreldrarnir tilkynntu um hvarf hennar þann 15. desember.
Móðir hennar og stjúpfaðir segjast síðasta hafa séð hana að kvöldi 23. nóvember. En af einhverjum ástæðum biðu þau í þrjár vikur með að tilkynna hvarf hennar.
Thompson segir að skóli Madalina hafi ítrekað reynt að ná sambandi við foreldra hennar en það hafi ekki verið fyrr en 15. desember sem móðir hennar kom í skólann og sagði að Madalina væri saknað.
Skólinn tilkynnti lögreglunni strax um málið en þá höfðu foreldrarnir ekki tilkynnt lögreglunni um málið.
Tveimur dögum síðar voru þau handtekin og kærð fyrir að hafa ekki tilkynnt um hvarf hennar.