„Enginn lætur okkur fá mat lengur mamma. Birgðirnar okkar eru ónothæfar í hreinskilni sagt. Við náum í vatn í polla og síum það og drekkum.“
Þetta sagði rússneskur hermaður, sem var staddur í Lyman í Úkraínu, þegar hann hringdi í móður sína.
The Guardian segir að hermaðurinn, Andrey að nafni, hafi hunsað fyrirmæli yfirmanna sinna um að nota ekki símann sinn. Hann hringdi því í móður sína klukkan 15.10 þann 8. nóvember.
Hann er ekki eini hermaðurinn sem hefur hunsað þessi fyrirmæli og hringt heim.
Ástæðan fyrir símabanninu er að Úkraínumenn fylgjast vel með fjarskiptum og geta notfært sér símtölin.
The Guardian hefur komist yfir upptökur af fjölda símtala af þessu tagi og varpa þær ljósi á það sem rússnesku hermennirnir upplifa á vígvellinum.
Í einu þeirra ræðir hermaður við eiginkonu sína. „Ég sef í gegnblautum svefnpoka. Hósta og er algjörlega í steik. Við fengum allir leyfi til að láta slátra okkur,“ sagði hann við eiginkonuna og bætti við að hann neyðist til að flýja frá herdeild sinni og væri að íhuga að gefast upp fyrir Úkraínumönnum.