Ísak Bergmann Jóhannesson, miðjumaður FC Kaupmannahafnar og íslenska landsliðsins, segir að uppeldisfélag sitt, ÍA, verði að setja sér skýra stefnu fyrir komandi ár.
ÍA féll úr efstu deild karla í sumar og hefur ekki náð að festa sig nógu vel í sessi á meðal þeirra bestu undanfarið.
„Ég er með sterkar skoðanir á þessu. Það þarf að setjast niður og skrifa stefnu ÍA. Það er til dæmis hægt að horfa til Nordsjælland, Bodo/Glimt eða Silkeborg,“ segir hinn 19 ára gamli Ísak í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark.
„ÍA þarf að fara á gervigras því leikmenn ÍA eru miklu betri á gervigresi. Breiðablik og Víkingur eru miklu framar en flest lið á Íslandi því þeir geta spilað sinn bolta á gervigrasi. ÍA þarf að finna sinn bolta og ekki falla frá honum þó liðið falli um deild.“
Það þarf að setja einbeitinguna á ungu leikmennina, segir Ísak.
„ÍA þarf að einbeita sér að því að vera best í unglingastarfinu, setja allt í það, búa til landsliðsmenn, spila skemmtilegan fótbolta og búa til gott umhverfi á Akranesi, sem er akkúrat núna ekki nógu gott til að verða betri.
Svo þarf að trúa á ungu strákana. Vinna með þeim, bjóða upp á morgunæfingar, vídeófundi og búa til sem best umhverfi fyrir þá. Þá kannski heyra strákarnir frá Reykjavík af því að það sé gott umhverfi upp á Skaga og hugsa að þeir geti farið þangað til að verða atvinnumenn.“