Íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted hefur gert samning við hollenska úrvalsdeildarfélagið Twente.
Samningur leikmannsins við Bodo/Glimt í Noregi var runninn út og voru mörg lið að skoða hans mál.
Alfons er 24 ára gamall hægri bakvörður en hann lék með Bodo frá 2020 og náði mögnuðum árangri.
Alfons varð norskur meistari með Bodo og náði liðið einnig frábærum sprett í Evrópukeppni.
Alfons ræddi við heimasíðu Twente í kvöld eftir að skiptin voru staðfest.
,,Þegar ég lék með Bodo/Glimt gegn PSV og AZ þá upplifði ég andrúmsloft vallana hérna. Það var stór ástæða fyrir því að ég valdi Holland,“ sagði Alfons.
,,Um leið og ég heyrði af áhuga Twente þá fylgdist ég með leikjum liðsins og var mjög hrifinn af tenging leikmannana og stuðningsmanna.“
,,Twente er lið sem spilar af mikilli orku sem hentar mér. Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, spilaði líka með félaginu og ég heyrði góðar sögur frá honum.“