Íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted hefur gert samning við hollenska úrvalsdeildarfélagið Twente.
Þetta herma öruggar heimildir Fréttablaðsins en Alfons hefur undanfarnar vikur verið án félags.
Samningur leikmannsins við Bodo/Glimt í Noregi var runninn út og voru mörg lið að skoða hans mál.
Alfons er 24 ára gamall hægri bakvörður en hann lék með Bodo frá 2020 og náði mögnuðum árangri.
Alfons varð norskur meistari með Bodo og náði liðið einnig frábærum sprett í Evrópukeppni.
Twente er nokkuð sögufrægt félag í Hollandi og hafnaði í fjórða sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.