Slysavarnafélagið Landsbjörg bendir á að akstur á illa búnum bíl getur ekki bara valdið bílstjóra hans vandræðum heldur mörgum öðrum sem ekki komast framhjá. Í tilkynningu frá félaginu eru ökumenn hvattir til að huga vel að útbúnaði bíla sinna, taka skóflu með í ferðalagið og klæðast hlýjum vetrarfötum. Tilkynningin er eftirfarandi:
„Í ljósi atburða undanfarinna daga vill Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetja alla til að huga vel að útbúnaði bifreiða sinna. Ferðalag á vanbúnum bíl getur ekki bara þýtt vandræði fyrir bílstjóra hans, heldur marga aðra sem ekki komast framhjá.
Það er gott að vera með skóflu í bílnum. hlý vetrarföt og góða skó, ef þú þarft að fara út í veðrið til að moka upp bílinn, eða aðstoða aðra.
Látum aðra vita af ferðum okkar, það er skynsamlegt að skilja eftir ferðaáætlun á safetravel.is og þar er einnig að finna mikilvægar upplýsingar um færð og veður.
Förum ekki af stað ef aðstæður eru tvísýnar. Sófinn er jú notalegri en skaflinn.
Verum vel búin og örugg á ferðinni.
Ef þú lendir í vandræðum og þarft aðstoð, ekki hika við að hringja í 112.“