Youssoufa Moukoko hefur verið mikið í umræðunni í vetur. Hann þykir eitt mesta efnið í fótboltanum í dag.
Moukoko er aðeins átján ára gamall og spilar yfirleitt sem fremsti maður. Þrátt fyrir ungan aldur er hann fastamaður hjá Borussia Dortmund í Þýskalandi.
Samningur hans rennur hins vegar út næsta sumar og þykir líklegt að hann fari.
Chelsea og Liverpool hafa verið nefnd í samhengi við næsta áfangastað kappans. Spænski miðillinn Sport vill hins vegar meina að hann fari ekki til Englands.
Samkvæmt Sport hefur Moukoko gert upp hug sinn og ætlar til Barcelona næsta sumar á frjálsri sölu.
Á þessari leiktíð hefur kappinn skorað sex mörk og lagt upp fjögur í fjórtán leikjum og heillað mikið.
Þá var Moukoko hluti af A-landsliði Þýskalands sem fór á Heimsmeistaramótið í Katar, þar sem liðið olli miklum vonbrigðum og féll úr leik í riðlakeppninni.