Agnes M. Sigurðardótti, biskup Íslands, var harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum, sérstaklega á Twitter, fyrir ummæli í jólapredikun sinni í Grafarvogskirkju á jóladag, þess efnis að þöggun væri í gangi um guð kristninnar og það mæltist ekki vel fyrir að nefna nafn hans í opinberri umræðu. Orðrétt sagði Agnes meðal annars þetta:
„Guð birtist hér á jörð í barninu Jesú. Það er ekki vinsælt að nefna nafnið hans í opinberri umræðu. Það hefur verið þöggun í gangi varðandi Guð kristinna manna. Spurt var hvort samhengi væri á milli vanlíðunar ungs fólks og þess að ekki mætti lengur fræða börnin um kristna trú í skólum landsins. Fundarmenn hneyksluðust á þessari spurningu. Hvaða samhengi ætti svo sem að vera á milli þessa?“
Margir hæddust að Agnesi fyrir að kvarta undan þöggun í ræðu sem bæði var sjónvarpað og útvarpað í Ríkisútvarpinu. Töldu margir það vera mótsagnakennt. „Hversu staurblind þarftu að vera til að kvarta undan þöggun í klukkutíma löngu útsendingunni þinni í sjónvarpi og útvarpi á hverju einasta heimili landsins?“ sagði Haukur Bragason á Twitter. „Þetta er forréttindablinda,“ sagði annar netverji og Jón Gnarr skrifaði: „ég er alls ekki sammála biskupi Íslands í því að það sé einhver þöggun í gangi hér á landi um Guð og ekki megi tala um Jesús. finnst öll vera að tala um þá“
Þessi ummæli eru aðeins brotabrot af þeirri skriðu ummæla sem birtust á Twitter um predikunina og voru mörg þeirra mjög harðorð í garð biskups. Þorgeir Tryggvason, tónlistarmaður og bókmenntagagnrýnandi í Kiljunni með meiru, veltir vöngum þeirri taumlausu reiði sem orð Agnesar virðast hafa vakið hjá mörgum en hann segir sjónarmið hennar ekki vera fráleitt:
„Það er nú meira hvað Agnes biskup strýkur mörgu fólki móti hárunum. Mín tilfinning er að það hafi ekki alltaf mikið að gera með það sem hún segir, eða það sem hægt er að reikna út með góðum vilja að hún meinar. Það hefur einhvernvegin skapast hefð fyrir að missa algerlega jafnvægið þegar Agnes kemst óheppilega að orði (sem hún gerir), eða fyrirsagnir draga fram eitthvað bitastætt fyrir þau sem langar að kalla einvern „kerlingin“, sem mér finnst pínu ótrúlegt hvað mörg gera við þessi tilefni.“
Þorgeir dregur raunar viðhorf Agnesar, eins og þau birtast í jólapredikunni, í efa, en fráleitt sé að slá þau út af borðinu:
„Ég er reyndar ekki sannfærður um að andlegri heilsu ungmenna hafi hrakað línulega eftir því sem rödd kristninnar hefur hljóðnað meðal almennings. Þar gæti nefnilega spilað inn í önnur þöggun – þöggun um líðan, þöggun um heimilisböl, þöggun um kynhneigð. Við vitum miklu meira um þessa líðan í dag en á þeim tíma þegar trúræknin var „default“.
En sjónarmið Agnesar og kirkjunnar, eins og ég skil það, er samt ekki fráleitt. Það á ekki að slá það út af borðinu með fyrirlitningu.“
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, kemur Agnesi einnig til varna. Bæði hann og Þorgeir láta í það skína að sjálfir séu þeir ekki trúræknir. Þorgeir tekur raunar fram að hann sé ekki í þjóðkirkjunni. Guðmundur Andri leggur áherslu á virðingu fyrir mannréttindum, þar á meðal tjáningarfrelsi, og að gæta þurfi að slíkum grundvallarréttindum bæði hjá trúuðum og trúlausum:
„…nú sé ég að sumir bregðast bálreiðir við orðum Agnesar biskups – fastir liðir eins og venjulega þar. Almennt finnst mér að trúmál eigum við að ræða af yfirvegun og virðingu fyrir mannréttindum. Virðingu fyrir þeim mannréttindum að búa yfir trúarsannfæringu um tengingu við almættið, hvernig svo sem það er í laginu – en líka virðingu fyrir tjáningarfrelsi. skoðanafrelsi, kynfrelsi og frelsi til að klæða sig að vild og vera sá/sú/það sem maður telur sig vera. Frelsi til að óhlýðnast og frelsi til að fara ekki að fyrirskipuðum siðum.“
Guðmundur Andri segir ennfremur að það verði að taka orð biskups um þöggun alvarlega. Hins vegar þurfi kirkjunnar fólk að gera sér grein fyrir því að í veraldlegu samfélagi hafi þjóðkirkjan ekki greiða leið að skólabörnum með boðskap sinn:
„Ef foringi kristinna manna á Íslandi segir að fólk veigri sér við að játa trú sina í opinberu rými af ótta við aðkast og smánun þá getum við ekki bara afgreitt það sem einhverja vitleysu og brugðist við með einhverju láttuekkisvona og hættessuvæli heldur þurfum við að taka þessa umkvörtun alvarlega og líta í eigin barm og hugleiða hvort okkur hætti til að smána fólk fyrir að vera kristið. En foringi kristinna manna á á Íslandi þarf líka að gera sér grein fyrir því að sá tími er liðinn að prestar og kirkjunnar þjónar eigi greiða leið að heilabúum barnanna með biblíusögurnar sínar og boðskapinn sem í þeim felst. Þannig bara er það og er fullkomlega eðlilegt í sekúlaríseruðu samfélagi.“