Andy Cole, goðsögn Manchester United, lét í sér heyra á Twitter á dögunum er hann var borinn saman við Darwin Nunez.
Nunez er leikmaður Liverpool í dag en hann gekk í raðir félagsins í sumar og hefur byrjað ágætlega.
Einhverjir hafa verið að líkja leikstíl Nunez við Cole en sá síðarnefndi er alls ekki hrifinn af þessum samanburði.
Cole átti frábæran feril í ensku úrvalsdeildinni og skoraði á sínum tíma tæplega 200 mörk og vann ófáa titla.
,,Cole… Nunez, ég er ekki viss hvar þetta kjaftæði byrjaði. Ég er ánægður og hættur. Fimm Englandsmeistaratitlar, tveir bikartitlar, einn deildabikar og einn Meistaradeildartitil,“ sagði Cole.
,,Gullskórinn, ungi leikmaður ársins, 187 úrvalsdeildarmörk, ein vítaspyrna. Lífið er það sem þú gerir það að.“
,,Fólk þarf að hætta að vanvirða nafn mitt.. Bara því ég spila ekki lengur. Ég er hljóðlátur náungi að lifa mínu lífi og fólk telur að það megi vanvirða mig.“