Newcastle er tilbúið að bjóða tuttugu milljónir evra í Memphis Depay, sóknarmann Barcelona og hollenska landsliðsins.
Það er spænski miðillinn Mundo Deportivo sem greinir frá þessu.
Depay er 28 ára gamall og er samningsbundinn Barcelona út þessa leiktíð. Hann er hins vegar tilbúinn að yfirgefa félagið í janúar.
Barcelona er að öllum líkindum til í að leyfa honum að fara. Depay er í aukahlutverki á Nývangi.
Galatasaray hefur sýnt Depay mikinn áhuga. Hann er hins vegar ekki til í að taka skrefið til Tyrklands á þessum tímapunkti ferilsins.
Endurkoma í ensku úrvalsdeildina gæti því heillað. Leikmaðurinn var áður á mála hjá Manchester United. Newcastle gæti boðið upp á það.
Depay er nýkominn af Heimsmeistaramótinu í Katar með hollenska landsliðinu. Þar fór liðið í 8-liða úrslit.
Kappinn hefur verið á mála hjá Barcelona síðan sumarið 2021.