Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að hugleiða ætti hvort best sé að nota Reykjavíkurflugvöll fyrir hluta af innanlandsflugi næsta sólarhringinn þar sem veður sé mun skaplegra í Reykjavík en í Keflavík.
Njáll Trausti er flugumferðarstjóri og situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Hann varpaði hugmyndinni fram á Facebook:
„Nú er spurning hvort ekki eigi að taka þetta lengra og skoða vel að fljúga millilandaflugið frá Reykjavíkurflugvelli næsta sólarhringinn. Miðað við veðrið síðustu klst. og veðurspárnar fyrir Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll næsta sólarhringinn.“
Tilefnið eru hugmyndir sem eru í skoðun um að fljúga farþegum frá Keflavík til Reykjavík, en vegir þar á milli eru lokaðir. Njáll segir í svari við fyrirspurn frá DV:
„Veðurathuganir og veðurspá fyrir Keflavíkur og Reykjavíkurflugvöll sýna okkur að það má ætla að veðuraðstæður á Reykjavíkurflugvelli líta út fyrir að vera hagstæðari en á Keflavíkurflugvelli næsta sólarhringinn. Það fara að skapast vandamál með landganganna út í flugvélarnar þegar veðurhæð fer yfir 40 hnúta. Næsta sólarhringinn má reikna með að vindhraði á Miðnesheiðinni verði frá rétt 40 hnútum og í vindhviðum nær vindhraðinn allt að 55 hnútum. Þetta er reyndar ekki nýtt vandamál í Keflavík og mikið rætt hvort það væri hægt að bæta úr með einhverjum hætti og skoða hvernig staðið er að málum á flugvöllum sem staðsettir á vindasömum stöðum.“
Njáll segir að viðbragðsáætlun sem þessi ætti fyrst og fremst að vera notuð til að koma á samgöngum við meginland Evrópu, sem og London:
„Svona viðbragðsáætlun hlyti fyrst og fremst að koma á samgöngum við meginland Evrópu og þá væri væntanlegast að koma sem flestum á Kaupmannahöfn og London. Boeing 757 vélar Icelandair væru væntanlega öflugastar í svona verkefni, mikil afkastageta og getur tekið marga farþega.“
Njáll segir enn fremur:
„Ég er ekki að tala um að tengimiðstöðinni sé haldið gangandi heldur að skoða möguleika á því hvort það sé hægt með einhverjum hætti að halda lágmarks flugsamgöngum til og frá landinu. Þannig að það væri ekki nauðsynlegt að afgreiða margar vélar á Reykjavíkurflugvelli á sama tíma. Flugstöðin í Vatnsmýrinni er auðvitað takmarkandi þáttur í svona aðstæðum.“