„Við höfum fengið þessa skýrslu og verið í samskiptum við Vinnumálastofnun og ráðuneytið vegna þeirra athugasemda sem hafa komið. Það var þegar í byrjun þessa árs byrjað að vinna að því að bæta úr t.d. vanköntum sem sneru að trúnaðarbresti. Varðandi þær athugasemdir sem snúa að stjórn félagsins þá er verið að leggja til ákveðnar breytingar sem við erum að vinna í samráði við Vinnumálastofnun,“ segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður samtakanna Hugarafl.
DV greindi í morgun frá nýbirtri skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) þar sem gerðar eru athugasemdir við starfsemina. Er þar bent á að framkoma stjórnenda virðist hafa verið ámælisverð í einhverjum tilvikum og meðal annars hafi verið brotinn trúnaður við félagsmenn. Einnig var fundið að því að samtökin nái ekki að anna víðtæku hlutverki sínu nægilega vel og reiði sig um of á sjálfboðaliða.
Ljóst er að nokkuð langt er síðan Hugarafl hóf að bregðast við þessum athugasemdum en drög að skýrslunni voru komin fram áður. Sævar bendir einnig á að skýrslan sé um margt jákvæð í garð samtakanna:
„En skýrslan er að mörgu leyti mjög jákvæð í garð samtakanna og við fögnum því. En við munum taka þessar ábendingar til okkar og vinna eftir þeim af bestu getu.“