Það voru sendiherrar aðildarríkja sambandsins sem sömdu um refsiaðgerðirnar í gær en á sama tíma sátu leiðtogar aðildarríkjanna á fundi í Brussel.
Ekki hefur verið skýrt frá hvað pakkinn inniheldur en reiknað er með að hann muni beinast að drónaiðnaði Rússa, takmarka fjárfestingar í rússneskum námuiðnaði og að gripið verði til fleiri refsiaðgerða gegn rússneskum einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum.
Á refsiaðgerðalista ESB eru nú þegar rúmlega 1.300 einstaklingar, fyrirtæki og samtök, sem tengjast Rússlandi, og nú bætist væntanlega enn við þann lista.
Á lokakafla samningaviðræðnanna var tekist á um hvort draga eigi úr hömlum á útflutningi Rússa á áburði. Nokkur vesturevrópsk ríki vildi slaka á hömlum á útflutningi til ríkja utan ESB því það getur að þeirra mati hjálpað Afríkuríkjum að forðast hungursneyð.
Hópur austurevrópskra ríkja, undir forystu Pólverja, barðist hins vegar gegn þessu og vill halda fast í harðar refsiaðgerðir gegn Rússum. Það er nauðsynlegt til að hægt verði að binda endi á stríðið í Úkraínu, að þeirra mati.
ESB-ríkin náðu einnig samkomulagi um efnahagslegan stuðning við Úkraínu á næsta ári og verður hann 18 milljarðar evra. Þessir peningar eiga að hjálpa ríkisstjórninni við að greiða laun og eftirlaun til opinberra starfsmanna og til að halda uppi opinberri þjónustu.