Feðgar sem komu að stofnun fiskútflutningsfyrirtækisins Arctic Ocean Seafood voru síðastliðið sumar dæmdir fyrir aðild að umfangsmikilli kannabisframleiðslu og peningaþvætti. Kjarninn greinir frá þessu.
Kjarnamenn hafa komist að því að sakborningar í nafnhreinsuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu séu í reynd þeir Hákon Elfar Guðmundsson, Fannar Örn Hákonarson og Ómar Hákonarson. Málið hefur verið gífurlega lengi í rannsókn en það kom upp árið 2016. Ári síðar stofnuðu feðgarnir fiskútflutningsfyrirtækið Arctic Ocean Seafood en það hefur undanfarin tvö ár velt tæplega tveimur milljörðum króna, samkvæmt frásögn Kjarnans.
Dóminn í málinu má lesa hér.
Sem fyrr segir kom kannabismál feðganna upp árið 2016. Voru gerðar upptækar á sjötta hundað kannabisplöntur, rúm 9 kg af tilbúnum kannabisefnum, yfir 17 kg af kannabislaufum og 110 gróðurhúsalampar auk annars búnaður sem notaður er við framleiðslu kannabisefna. Ræktunin fór fram á Smiðjuvegi í Kópavogi.
Í frétt Kjarnans segir ennfremur:
„Árið 2017, eða árið eftir að feðgarnir þrír sættu gæsluvarðhaldi fyrir kannabisframleiðsluna, stofnuðu þeir fyrirtækið Arctic Ocean Seafood, sem samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins flytur nú út ýmsar fisktegundir frá Íslandi um allan heim.
Samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins árið 2017 átti hver þeirra þriggja um þriðjungshlut í félaginu, en í ársreikningnum ári seinna var eiginkona Hákons orðinn eini hluthafinn í félaginu og hefur hún verið það síðan.“