DV hefur undir höndum ákæru í hryðjuverkamálinu svonefnda, gegn þeim Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathansyni. Í fyrsta lið ákærunnar er Sindra Snæ gefin að sök tilraun til hryðjuverka, „með því að hafa ákveðið að valda ótilgreindum hópi fólks, á ótilgreindum stað, bana eða stórfelldu líkamstjóni eða stefna lífi þeirra í hættu með stórfelldum eignaspjöllum.“
Segir að Sindri hafi sýnt þennan ásetning í verki með orðfæri og yfirlýsingum á samskiptaforritinu Signal. Hann hafi einnig gert það með því að útbúa, framleiða og afla sér skotvopna, íhluta í skotvopn, skotfæra og varnarbúnaðar. Hann hafi auk þess keypt árásarriffla af gerðinni AK-47 og AR-15 og breytt þeim í hálfsjálfvirk skotvopn.
Ennfremur er hann sagður hafa sótt sér efni frá þekktum hryðjuverkamönnum og orðið sér úti um efni og upplýsingar um sprengju- og drónagerð.
Sindri er ennfremur sagður hafa reynt að verða sér úti um lögregluskilríki, lögreglufatnað og lögreglubúnað með það fyrir augum að villa um fyrir fólki í tengslum við skotárás á fólk. Ekki er tilgreint í ákæru með hvaða hætti Sindri hafi viðhaft þessar tilraunir til að komast yfir þennan búnað.
Ísidór er sakaður um hlutdeild í brotinu með því að liðsinna Sindra í orði og verki og hvetja hann áfram. Einnig með því að útvega honum upplýsingar um þekkta hryðjuverkamenn, sem og upplýsingar um sprengju- og drónagerð. Auk þess er hann sakaður um að hafa hafa tekið þátt í framleiðslu skotvopna með Sindra.
Bæði Sindri og Ísidór eru síðan ákærðir fyrir stórfellt vopnalagabrot með því að hafa ólögleg vopn í vörslu sinni og framleiða vopn.
Báðir piltarnir eru einnig ákærðir fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft maríhúana, amfetamín og stera í vörslu sinni.
Sindri og Ísidór sátu í gæsluvarðhaldi frá 21. september þar til í gær er þeir voru látnir lausir úr haldi. Landsréttur sneri þá við gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms sem hafði úrskurðað þá í gæsluvarðhald til 6. janúar á næsta ári. Ákvörðun Landsréttar er grundvölluð á geðmati á piltunum þar sem þeir eru metnir hættulausir gagnvart sjálfum sér og öðrum.