Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur hjúkrunarfræðingi á geðdeild Landspítalans. Hin ákærða er kona á sextugsaldri.
RÚV greinir frá.
Konan starfaði á geðdeild 33C á Landspítalanum. Er hún ákærð fyrir manndráp og brot í opinberu starfi.
Málið kom upp í ágústsmánuði árið 2021. Konan er grunuð um að hafa þvingað næringarvökva ofan í sjúkling, sem einnig var kona á sextugsaldri, með þeim afleiðingum að vökvinn barst í lungu sjúklingsins, sem kafnaði.
Samkvæmt frétt RÚV hefur rannsókn málsins verið umfangsmikil og hafa yfir 20 vitni verið yfirheyrð. Konan hefur ekki starfað á spítalanum síðan málið kom upp. RÚV hefur heimildir fyrir því að samstarfsfólk konunnar hafi lýst yfir áhyggjum af starfsháttum hennar og talið hugsanlegt að hún bæri ábyrgð á andláti sjúklingsins.