Samkvæmt Sport á Spáni mun brasilíska knattspyrnusambandið hafa samband við Manchester City upp á að fá knattspyrnustjóra liðsins, Pep Guardiola, um að taka hugsanlega við landsliði Brasilíu.
Tite hætti sem landsliðsþjálfari Brasilíu eftir að liðið datt úr leik í 8-liða úrslitum Heimsmeistaramótsins í Katar af hendi Króata.
Guardiola hefur áður verið orðaður við starfið og fara þeir orðrómar aftur af stað nú.
Hann skrifaði hins vegar nýlega undir nýjan samning við Manchester City til ársins 2025 og verður því að teljast ólíklegt að hann stökkvi frá borði nú, þó svo að starf landsliðsþjálfara Brasilíu sé ansi stórt.