fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Hörð orð féllu í pontu á Alþingi – Katrín fordæmd og sögð villa um fyrir þinginu af óheiðarleika

Eyjan
Þriðjudaginn 13. desember 2022 15:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann Páll Jóhannsson, fordæmdi í dag á Alþingi framgöngu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra með vísan til þess að loforð ríkisstjórnarinnar um hækkaðar barnabætur hafi í reynd ekki falið í sér jafn mikla kjarabót og lofað var.

„Nú er komið í ljós, og þetta er eitthvað sem ég hefði ekki trúað en þetta er eitthvað sem við hrósuðum ríkisstjórninni fyrir í gær, en nú er komið í ljós að hæstvirtur forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, var að villa um fyrir Alþingi hér í þessum ræðustól í gær þegar hún fjallaði um umfang þeirra auknu fjárheimilda til barnabóta sem ríkisstjórnin leggur til og bar saman við tillögur stjórnarandstöðunnar.“

Jóhann útskýrir að þrátt fyrir loforð um fimm milljarða hækkun á barnabótum sjáist af breytingartillögu ríkisstjórnarinnar að í reynd verði hækkunin töluvert minni. Engu að síður hafi Katrín haldið öðru fram í ræðustól á þingi í gær, en Jóhann fordæmdi Katrínu fyrir þá framgöngu og var fyrir vikið skammaður af forseta Alþingis og minntur á að gæta orða sinna.

„Í gær áttu barnabætur að hækka um fimm milljarða, en nú liggja breytingartillögur ríkisstjórnarinnar fyrir. Þar er gert ráð fyrir að barnabætur hækki aðeins um 600 milljónir á gildistíma kjarasamningsins nýja og að þær hækki um rúmlega 2 milljarða, verði 2 milljörðum hærri árið 2024 en þær eru í dag, og þær áttu að vera áfram samkvæmt fjárlögum og fjármálaáætlun.

Þetta er ótrúlega óheiðarlegt virðulegi forseti, og ég er bara hálf miður mín yfir því hvers konar stjórnmálamaður hæstvirtur forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir er orðin. Að óheiðarleikinn sé svona. Að svona sé gengið fram gagnvart þjóðþinginu í landinu – ég fordæmi það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt