Neymar hefur verið sýknaður á ný af ákærum um svik og spillingu í tengslum við skipti hans frá Santos til Barcelona árið 2013.
Knattspyrnumaðurinn sem og faðir hans og fyrrum forsetar Barcelona, Josep Maria Bartomeu og Sandro Rosell , ásamt fyrrum forseta Santos, Odilo Rodrigues, voru sýknaðir fyrir rétti í október.
Brasilíska fyrirtækið DIS, sem átti 40 prósent í Neymar árið 2013, sakaði þá ákærðu um að hafa falið greiðslur í tengslum við skipti Neymar til Barcelona til að minnka greiðsluna til fyrirtækisins.
Sem fyrr segir voru Neymar, faðir hans og forsetarnir sem um ræðir sýknaðir í október en þá áfrýjaði DIS.
Fyrirtækið krafðist upphaflega fimm ára fangelsisdóms yfir Neymar en lækkaði þá kröfu niður í tvö og hálft ár.
Nú hafa aðilarnir sem koma að málinu hins vegar verið sýknaðir á ný og eru því lausir allra mála eins og er.