fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

„Þarna er eitthvað sjónarspil á ferð sem ég kann ekki að meta“

Eyjan
Þriðjudaginn 13. desember 2022 13:24

Sólveig Anna Jónsdóttir, mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur ýmislegt út á nýgerða kjarasamninga að setja og furðar hún sig á „brellum og hundakúnstum“ sem hún telur beitt í kynningu á samningunum þar sem þeir séu kallaðir framlenging á Lífskjarasamningi. Slíkar fullyrðingar séu með öllu tilhæfulausar.

Í hvaða tilgangi er þetta eiginlega gert?

Sólveig skrifar á Facebook:

„Það er margt sem ég get og vil gagnrýna við kjarasamnings-atburðarás síðustu daga og vikna. Eitt af því er að menn láta sem að þeir samningar sem nú hafa verið undirritaðir séu framhald á Lífskjarasamningnum sem rann út 1. nóvember síðastliðinn. Þetta er einfaldlega ósatt, og furðulegt að menn vilji stunda einhverjar brellur og hundakúnstir. Í hvaða tilgangi er það eiginlega gert?“ 

Ef fólk vilji á annað borð ræða Lífskjarasamninginn eigi að gera slíkt að heiðarleika og útskýra fyrir launafólki að inn í þeim hækkunum sem nú hefur verið samið um séu hækkanir sem þegar hafði verið samið um í Lífskjarasamningnum, eða hagvaxtaraukinn svokallaði.

Lífskjarasamningurinn hafi leitt til raunverulegrar kaupmáttaraukningar, eða allt þar til verðbólgan át hana upp. Núverandi samningar, þó þar sé samið um nokkra hækkun, muni ekki skila sér í vasa launþega vegna verðbólgunnar nema kannski í mýflugumynd.

„Í Lífskjarasamningnum var samið um krónutöluhækkanir. Öll fengu sömu hækkanir. Þeir samningar sem undirritaðir voru í gær eru prósentu-samningar. Þau sem hafa hæstu launin fá mest, 66.000 krónur (með þegar umsömdum hagvaxtarauka), á meðan að láglaunafólk fær minnst eða 35.000 krónur með hagvaxtarauka.“

Mönnum hrósað eins og hetjudáð hafi verið framin

Sólveig Anna telur að nú sé fólk að hreykja sér af því að fljótt hafi tekist að ná samningum og hafi fólki verið hrósað mikið fyrir þann hraða. Þetta sé þó ekkert afrek.

„Látið er eins og svokallaðir maraþonfundir og mikill hraði við samningagerð séu sérstakt afrek, og mönnum er hrósað eins og hetjudáð hafi verið framin. Þarna er eitthvað sjónarspil á ferð sem ég kann ekki að meta. Afstaða mín er þessi: Í stað þess að trúa þessum hetjusögum og gleðjast yfir þeim, skulum við búa okkur undir að nákvæmlega sömu ömurlegu vinnubrögðin verði notuð næst, og næst, og næst…: SA smalar mönnum inn í rétt, valdastéttin fagnar og mönnum er ekki hleypt út fyrr en þeir hafa samþykkt að gefa atvinnurekendum allan hagvöxtinn.

Í stað þess að öll viðurkenni að það að semja um laun fyrir vinnuaflið er eitt það mikilvægasta sem við tökum að okkur og að okkur ber að vanda til verka, sýna þolinmæði og þrautseigju er látið sem að fjölmiðlabann, leyndahyggja, hraði og ógagnsæi sé eitthvað til að hreykja sér af. Það sem að við höfum orðið vitni að er stórfurðulegt, svo vægt sé til orða tekið.“

Samið um kaupmáttarrýrnun í bullandi hagvexti

Staðreyndin sé sú að þó að hagvöxtur hafi verið mun mun minni þegar Lífskjarasamningurinn var undirritaður þá hafi hreyfing vinnandi fólks náð betri samningi en nú hefur verið samið um. Ástæðan sé þrautseigja og samstaða. Nú sé ekki sami andinn við lýði og í raun hafi verið samið um kaupmáttarrýrnun í gríðarlegum hagvexti.

„Vegna þess að fjöldasamstaðan er á endanum það sterkasta sem við eigum. Og ef við erum ekki tilbúin til að nota hana, til hvers í ósköpunum er þá verið að smala risastórum hópi launafólks saman í svokölluð heildarsamtök, líkt og ASÍ?

Staðreyndin er þessi: Samið er um kaupmáttarrýrnun í gríðarlegum hagvexti. Launafólk á að taka skellinn meðan að fjármagnseigendur og atvinnurekendur njóta góðærisins.

Finnst ykkur ekki frekar magnað að verða vitni að því?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt