Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að lögreglan á Vesturlandi sé nú að rannsaka mál beggja foreldra. Faðirinn er grunaður um að hafa beitt drenginn líkamlegu og andlegu ofbeldi en móðirin er grunuð um barnsrán.
Fram kemur að grunur hafi vaknað í október um að faðirinn beitti drenginn líkamlegu og andlegu ofbeldi.
Móðirin er sögð hafa ítrekað reynt að ná sambandi við barnaverndarnefnd vegna gruns um að faðirinn beitti drenginn ofbeldi en án árangurs. Í kjölfarið var drengurinn sóttur og settur í umsjá móður sinna. Það kærði faðirinn til lögreglu og af þeim sökum er mál móðurinnar til rannsóknar hjá lögreglunni.
Drengurinn var vistaður hjá óháðum aðila og í lok nóvember sagði hann sérfræðingum í Barnahúsi að faðir hans hefði beitt hann ofbeldi. Frá þeim tíma hefur hann verið vistaður hjá móður sinni.
Fréttablaðið segir að í greinargerð Borgarbyggðar um málið komi meðal annars fram: „. . . ef XX gerði eitthvað vitlaust, þá yrði faðir reiður, hann hrinti honum og sparkaði í hann. Hann greindi frá því að faðir sparkaði oftast í fæturna á honum en hefði líka sparkað í magann og snúið upp á hendur.“
Er það mat starfsmanna barnaverndar að frásögn drengsins sé trúverðug.