„Okkur þykir ekkert léttvægt að vera dæmd til að greiða fjórar milljónir króna til fyrrum sveitarstjóra og til viðbótar þrjár milljónir króna í málskostnað í máli sem að mjög litlu leyti féll á móti Borgarbyggð,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, í svari við fyrirspurn DV. Sveitarfélagið hefur ákveðið að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstarréttar til að áfrýja niðurstöðu Landsréttar í máli fyrrverandi sveitarstjóra, Gunnlaugs Auðuns Júlíussonar, gegn sveitarfélaginu.
Forsagan er sú að í nóvember árið 2019 var Gunnlaugi fyrirvaralaust sagt upp störfum sem sveitarstjóri Borgarbyggðar. Brottreksturinn var harkalegur því Gunnlaugi var gert að yfirgefa skrifstofu sína tafarlaust og skila síma, tölvu og bíl sem hann hafði til umráða. Af hálfu Borgarbyggðar var talið að Gunnlaugur hefði gerst sekur um trúnaðarbrest í tengslum við stjórnsýsluúttekt á sveitarfélaginu. Einnig hefðu Gunnlaugur og stjórnarmeirihlutinn ólíka sýn á stjórnun sveitarfélagsins, auk þess sem Gunnlaugi var brigslað um misbrest á verkstjórn sinni.
Fékk hann greidd laun á uppsagnarfresti sem var þrír mánuðir. Gunnlaugur krafðist ógildingar uppsagnarinnar og rúmlega 36 milljóna króna í skaðabætur. Hann tapaði málinu fyrir héraðsdómi en áfrýjaði til Landsréttar og hafði sigur að hluta.
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að Gunnlaugur hefði átt rétt á sex mánaða biðlaunum, ekki bara þriggja mánaða uppsagnarfresti. Landsréttur samþykkti ekki aðrar kröfur Gunnlaugs í málinu fyrir utan það veigamikla atriði að dómurinn dæmdi Borgarbyggð til að greiða honum málskostnað. Málið er því að óbreyttu orðið Borgarbyggð mjög dýrt.
Stefán Broddi segir í svari sínu við fyrirspurn DV um málið:
„Fyrrverandi sveitarstjóri ákvað að höfða mál á hendur Borgarbyggð vegna starfsloka sinna og krefjast greiðslna sem sveitarfélagið taldi langt umfram skyldu. Það er ofan á sex mánaða biðlaun sem hann fékk greidd en nú ætlast fyrrum sveitarstjóri og Landsréttur til að sveitarfélagið greiði þrjá mánuði í uppsagnarfrest þar ofan á.
Sveitarfélagið telur þá niðurstöðu Landsréttar að bæta uppsagnarfresti við biðlaunatíma í andstöðu við fyrri fordæmi Hæstaréttar og því ástæðu til að láta á það reyna hvort sú túlkun standist enda hefur það fordæmisgildi fyrir öll sveitarfélög landsins.
Okkur þykir ekkert léttvægt að vera dæmd til að greiða fjórar milljónir króna til fyrrum sveitarstjóra og til viðbótar þrjár milljónir króna í málskostnað í máli sem að mjög litlu leyti féll á móti Borgarbyggð.
Allir sem þekkja til starfsemi sveitarfélaga vita að það fjármagn sem þau hafa úr að spila rennur mest megnis í rekstur skóla, félagsþjónustu, æskulýðsmál og skipulagsmál. Allur kostnaðarauki sem við lendum í kemur alltaf niður á því fjármagni sem við getum ráðstafað í annað.“