Lögreglan í Sambíu sagði í gær að mennirnir hafi verið á aldrinum 20 til 38 ára. Talið er að þeir hafi látist úr hungri.
Lögreglan fann einn mann á lífi, nærri hinum látnu, snemma á sunnudagsmorguninn. Var hann illa á sig kominn og var strax fluttur á sjúkrahús í Lusaka.
Líkin voru flutt í líkhús og verða þau krufin til að hægt verði að slá því föstu hvað varð mönnunum að bana.
Það voru íbúar á svæðinu sem fundu líkin en þeim hafði verið „hent“ á landbúnaðarsvæði í útjaðri Lusaka.
Fyrstu niðurstöður rannsóknar lögreglunnar benda til að óþekktir aðilar hafi losað sig við líkin.
Förufólk frá austanverðri Afríku fer oft í gegnum Sambíu á leið sinni til Suður-Afríku en hagkerfið þar í landi er það næst stærsta í álfunni og dregur marga til landsins.
Yfirvöld í Sambíu hafa árum saman barist gegn smyglurum sem flytja förufólk til landsins og jafnvel áfram til annarra landa.