Emiliano Martinez, markvörður Argentínu, gæti verið á leið í bann fyrir ummæli sem hann lét falla á HM í Katar.
Martinez var bálreiður eftir leik við Holland í 8-liða úrslitum sem Argentína vann í vítakeppni eftir að Holland hafði jafnað í 2-2 í uppbótartíma.
Martinez baunaði harkalega á dómarann Antonio Mateu Lahoz eftir leik og er nú verið að skoða að senda hann í bann fyrir undanúrslitin.
,,Dómarinn gaf þeim allt í þessum leik. Hann vildi bara snúa viðureigninni við,“ sagði Martinez.
,,Hann gaf þeim 10 mínútur í uppbótartíma án ástæðu. Hann vildi að þeir myndu skora jöfnunarmarkið.“
,,Þessi dómari er klikkaður, hann er hrokafullur. Þú segir eitthvað við hann og hann svarar fyrir sig um leið, það er ótrúlegt.“
,,Spánn datt úr leik og þess vegna vildi hann henda okkur úr keppni. Þetta er versti dómarinn á HM – hann er gagnslaus.“