Við eftirlit lögreglu á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur í nótt kom í ljós að of fáir dyraverðir voru við vinnu á staðnum og krakkar undir lögaldri voru inni á staðnum. Forráðamenn skemmtistaðarins eiga von á kæru vegna málsins og tilkynning verður send á barnavernd vegna þeirra sem voru undir aldri inni á staðnum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að ekið var á gangandi vegfaranda í hverfi 110. Viðkomandi var flutur á bráðamóttöku með sjúkrabíl en ekki er vitað hversu mikið maðurinn er slasaður.
Maður var handtekinn í hverfi 109 þar sem hann var að brjótast inn í íbúð. Maðurinn var einnig eftirlýstur þar sem hann átti eftir að sitja af sér dóm og var hann því fluttur til vistunar í fangelsið á Hólmsheiði.
Maður var handtekinn sem hafði brotist inn í íþróttahús Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði og var hann vistaður í fangaklefa.
Kona féll á hlaupahjóli í miðborginni og var hún flutt á bráðamóttöku til aðhlynningar.