Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, segir að það hafi verið engin áskorun að höndla Cristiano Ronaldo er þeir unnu saman hjá félaginu.
Ronaldo olli töluverðum vandræðum hjá Manchester United í vetur og náði alls ekki saman við þjálfara liðsins, Erik ten Hag.
Ronaldo mætti í risaviðtal við Piers Morgan og gagnrýndi þar bæði vinnubrögð Ten Hag sem og stjórn félagsins.
Portúgalinn er nú frjáls ferða sinna eftir að hafa rift samningi sínum við Man Utd.
Ancelotti segist ekki hafa lent í neinum vandræðum með Ronaldo og segist aðeins hafa notið þess að þjálfa ofurstjörnuna.
,,Ég þjálfaði hann í tvö ár og hann gaf mér aldrei nein vandamál, hann leysti þau,“ sagði Ancelotti.
,,Leikmaður sem skorar allavega eitt mark í leik getur ekki verið vandamál. Cristiano er íþróttamaður sem æfir vel og fylgist ávallt vel með. Það var auðvelt að þjálfa hann.“