Nasser Al-Khelaifi forseti Paris Saint-Germain segir að félagið ætli að setjast niður með Lionel Messi og fulltrúm hans eftir Heimsmeistaramótið í Katar og ræða nýjan samning.
Samningur hins 35 ára gamla Messi við PSG rennur út næsta sumar. Hann hefur verið orðaður við Inter Miami undanfarið.
Al-Khelaifi segir hins vegar að Messi sé sáttur hjá PSG og opinn fyrir því að skrifa undir nýjan samning.
„Við samþykktum að ræða saman eftir Heimsmeistaramótið en báðir aðilar eru mjög glaðir,“ segir hann.
„Hann er mjög ánægður hjá PSG. Þú getur séð það á því hvernig hann spilar með landsliði sínu. Hann hefur verið frábær fyrir okkur á þessari leiktíð.“
Messi er nú staddur á HM í Katar með argentíska landsliðinu. Liðið er komið í 8-liða úrslit. Þar verður andstæðingurinn Holland. Liðin mætast klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.