Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður hjá RÚV var gestur í Íþróttavikunni með Benna Bó, ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs og þar var farið yfir víðan völl.
Gunnar hefur vakið verðskuldaða athygli sem íþróttalýsandi, bæði í tengslum við Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem nú fer fram í Katar sem og á stórmótum á borð við vetrarólympíuleikana.
Það var þó aldrei planið hjá Gunnari að starfa sem íþróttalýsandi en eitt leiddi af öðru líkt og hann gerði grein fyrir í Íþróttavikunni.
,,Ég get ekki sagt að þetta hafi verið eitthvað plan hjá mér. Maður ætlaði fyrst að reyna fyrir sér sem íþróttamaður, fyrst í fótboltanum og svo í skíðunum.
Mig langaði allavegana ekki að segja alveg skilið við íþróttirnar og fannst, að einhverju leiti, þurfa að auka veg vetraríþrótta í íslensku sjónvarpi.“
Úr varð að hann sótti um að fá tækifæri sem íþróttalýsandi hjá RÚV í tengslum við Vetrarólympíuleikana í Sochi 2014 og fékk það.
,,Eftir það byrjaði boltinn bara að rúlla, eitt leiddi af öðru eins og ég segi þá var þetta ekki eitthvað sem maður stefndi beint á að gera en ég er þakklátur fyrir traustið.“
Sérstaklega þakkaði hann Þorkeli Diego, yfirkennara í Verzló.
,,Fyrir að leyfa mér að stökkva úr nokkrum tímum til að leyfa mér að lýsa í kringum vetrarólympíuleikana í Sochi.“
Umræðuna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan: