Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS) boðar hækkun á barnabótum og húsnæðisbótum til leigjenda. Frá þessu greinir hann á Facebook.
Hann segir að undanfarið hafi hann verið í samtali við forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, varðandi atriði sem verkalýðshreyfingin hafi verið að vinna að með stjórnvöldum til að styðja við kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.
„Starfsgreinasamband Íslands hefur lagt mikla áherslu á hækkun barnabóta og nú er ljóst að það er í höfn. Einnig hefur SGS lagt mikla áherslu á að húsnæðisbætur til leigjenda verði auknar og það er einnig ljóst að það er í höfn. Einnig verða skerðingar og eignarmörk í vaxtabótakerfinu hækkaðar til að ná til fleiri sem þurfa á vaxtabótum að halda“
Vilhjálmur segir að það verði einnig fleiri atriði sem komi frá stjórnvöldum til að styðja við samninganna en samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðherra verði þessi atriði og upphæðir tilkynntar opinberlega í síðasta lagi eftir helgina.