Samkvæmt spænska miðlinum Relevo hefur Real Madrid mikinn áhuga á Alejandro Garnacho, kantmanni Manchester United.
Hinn 18 ára gamli Garnacho er að taka sín fyrstu skref með aðalliði United. Skömmu fyrir hléið sem nú er á ensku úrvalsdeildinni vegna Heimsmeistaramótsins í Katar skoraði hann sigurmark liðsins gegn Fulham.
Samningur kappans unga rennur hins vegar út næsta sumar.
Samkvæmt enska götublaðinu The Sun vill United framlengja samning Garnacho við félagið til árins 2027.
Jafnframt er félagið tilbúið að tífalda laun hans. Þá fengi hann um 50 þúsund pund á viku.
Garnacho hefur komið við sögu í átta aðalliðsleikjum United á þessari leiktíð.