Robbie Williams skemmti enskum landsliðsmönnum óvænt í höfuðstöðvum landsliðsins í Katar í gærkvöldi.
Þar er enska landsliðið statt á meðan Heimsmeistaramótið þar í landi fer fram.
Williams mun halda tónleika í Doha Golf Club í kvöld og nýtti tækifærið til að gleðja enska landsliðsmenn.
Hann er mikill stuðningsmaður Englands og langaði að hjálpa liðinu í undirbúningi sínum. Mikil ánægja var með uppákomu hans meðal enskra leikmanna.
Enska liðið undirbýr sig nú fyrir leik í 8-liða úrslitum HM gegn Frakklandi. Ljóst er að um ærið verkefni er að ræða, en Frakkland er Heimsmeistari frá því í Rússlandi sumarið 2018.
Leikurinn fer fram á laugardag. Hann hefst klukkan 19 að íslenskum tíma.