Margrét Sara Oddsdóttir, lögfræðingur og markþjálfi, segir að ef stöðu ungra drengja og stelpna á Íslandi væri snúið við, væri mun meiri umræða í gangi. Sara er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Sara segir löngu tímabært að samfélagið allt ræði stöðu drengja og ungra karlmanna í samfélaginu.
„Þú getur rétt ímyndað þér lætin í samfélaginu ef þessar tölur væru á hinn veginn. Ef stelpur myndu jafnvel fara í gegnum alla grunnskólagönguna án þess að hafa kvenkyns kennara, að þær væru núna aðeins 30 prósent af þeim sem fara í háskóla og þar fram eftir götunum. Á síðustu 20 árum er 74 prósent hækkun á meðal karlmanna á aldrinum 18-29 ára, sem fara á 75 prósent örorku eða meira. Þetta er ekki hækkun í vinnutengdum slysum, af því að öryggi hefur aldrei verið meira, þetta er einfaldlega geðheilbrigðismál. Þessi neikvæða þróun varðandi drengi og unga karlmenn í samfélaginu er bara á leiðinni í verri átt ef við gerum ekki eitthvað í því,“ segir Sara og heldur áfram:
„Ákveðnar tölur sýna okkur að þróunin er ekki góð og við erum í afneitun. Staða drengjanna okkar er ekki nógu góð og er bara að versna. Við verðum að fara að finna einhverjar lausnir. Strákar og stelpur eru ólík að eðlisfari og menntakerfið eins og það er uppbyggt virðist henta stelpum mun betur. Athyglisbrestur og ofvirkni brýst ólíkt út hjá strákum og stelpum. Allar tölur sýna það að árið 2022 virðist þurfa að finna nýjar lausnir við að kenna drengjum. Þegar stærra og stærra hlutfalla af drengjum þurfa að fara á lyf af því að þeir passa ekki inn í kerfið hljótum við líka að þurfa að skoða kerfið. Þó að margt hafi breyst til hins betra í skólunum virðast þessar gömlu aðferðir almennt ekki virka nógu vel. Ég er ekki á móti lyfjum við ADHD eða kvíða, en við erum að nota þessi lyf á börn og unglinga svo að þau passi betur inn í eitthvað kerfi, án þess að spyrja okkur hvort við þurfum ekki að breyta kerfinu.“
Sara segir að í umræðunni um tilfinningar og andlega líðan á Íslandi verðum við að taka sögu landsins inn í myndina.
„Við komum úr gríðarlega hörðum aðstæðum þar sem hér var barátta upp á líf og dauða alla daga fyrir ekki svo löngu síðan. Aðstæðurnar sem fólk bjó við fyrir ekki svo löngu voru mjög harðneskjulegar og það var líklega ekki mikið rými fyrir úrvinnslu tilfinninga og áfalla. Við þurfum ekki að fara nema 3-4 kynslóðir aftur í tímann til að sjá þær aðstæður að fólkið hér var að berjast fyrir lífi sínu alla daga, konur á mínum aldri höfðu kannski átt 10 börn og aðeins 5 voru á lífi og voru búnar að missa 2 menn. Menn fóru út á sjó í einverjum árabátum í óveðrum upp á von og óvon og svo þurfti bara að halda áfram með lífið. Það er staðurinn sem við erum að koma frá og í raun er þessi þjóð enn að vinna úr sameiginlegri áfallastreitu fyrri kynslóða,“ segir Sara.
„Núna búum við í allt annars konar aðstæðum, þar sem allt hefur batnað og efnahagur þjóðarinnar gjörbreyttist. En engu að síður hefur okkur á einhvern hátt aldrei liðið verr og nánast allar tölur um geðheilbrigði eru á leiðinni í ranga átt. Við verðum öll að taka samtal um það hvað við ætlum að gera í því. Þó að lyf eigi fullan rétt á sér getur það ekki verið eina lausnin að stærri og stærri hluti bæði barna og fullorðinna sé settur á lyf við geðsjúkdómum.“
Sara hefur sjálf tekið fleiri en eina U-beygju í lífinu eftir að hafa fundið að ástríðuna vantaði í það sem hún var að gera:
„Ég rak tískuverslanir eftir að hafa alist upp í tískugeiranum og var algjörlega sannfærð um að það væri það sem ég vildi gera í lífinu. En á einhverjum punkti áttaði ég mig á því að þessi draumur var bara byggður á hugmyndum úr æskunni og ákveðinni minnimáttarkennd. En eftir að ég hafði menntað mig í lögfræði tók ég svo í raun aðra U-beygju og áttaði mig á því að ég vildi vinna með fólki. Það er auðvitað meira en að segja það að ákveða að hætta einhverju sem maður hefur lagt mikinn pening, tíma og metnað í að gera, en á endanum verður maður að elta ástríðuna,“ segir Sara, sem á undanförnum árum hefur unnið sem markþjálfi með miklum fjölda fólks.
„Ég sé það oft í störfum mínum að fólk kveikir á því á milli þrítugs og fertugs að það vill í raun ekki starfa við það sem það menntaði sig til, en óttinn við hið óþekkta er stundum of mikill til að fólk þori að taka stökkið. Það er mjög skiljanlegt, sérstaklega ef fólk á börn, þarf að borga reikninga og óttast áhættuna. En staðreyndin er sú að ef við leyfum okkur að gera það sem við elskum falla hlutirnir oftar en ekki með okkur.“
Þáttinn með Söru og alla aðra Podcastþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á: https://solvitryggva.is