fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Elín um þolendur og gerendur: „Við megum ekki gleyma því hver eru hinir raunverulegu þolendur“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 8. desember 2022 12:30

Mynd af Elínu Jósepsdóttur: Skjáskot/Fréttablaðið - Mynd í bakgrunni: Pixabay

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við lifum á tímum sem mörg vilja kalla tíma útskúfunar- eða slaufunarmenningar. Við lifum á tímum þar sem við erum að læra að kalla hlutina réttum nöfnum og það sem áður var talað um í hálfum hljóðum sem fjölskylduharmleik er nú einfaldlega talað um sem ofbeldi.“

Svona hefst pistill sem Elín Jósepsdóttir skrifar en pistillinn var birtur í Fréttablaðinu í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Í pistlinum ræðir Elín um það hvernig samfélagið lítur á þolendur og gerendur í dag. „Í dag trúum við þolendum og hjálpum þeim, auk þess sem við drögum gerendur til ábyrgðar,“ segir hún.

„En mörgum þykir þó of langt gengið að útskúfa gerendum úr samfélaginu og eru fljót að bjóða þá velkomna aftur eftir nokkurra mánaða hlé. Það sem gerendur þurfa að þola vegna gjörða sinna þykir nægilega slæmt til þess að samfélagið fyrirgefi þeim, burtséð frá því hvort gerendur hafi tekið ábyrgð eða dregið einhvern lærdóm af því að þolendur þeirra opna sig.“

Elín segir að vissulega komi það fyrir að gerendur þurfi að þola ýmislegt vegna gjörða sinna. „Til dæmis að fólk sendi þeim ljót skilaboð eða tali um gjörðir þeirra opinberlega,“ segir hún.

„Þeir þurfa að þola að missa vinnuna eða fá ekki vinnu í sínum bransa. Sumir þurfa jafnvel að þola það að fjölskylda og vinir snúi við þeim baki.“

Þolendur þurfi einnig að þola ýmislegt

Elín bendir þó á að þolendur þurfa einnig að þola varanlegan skaða af völdum ofbeldisins sem gerendur hafa beitt þá. „Margir þolendur ofbeldis hafa örkuml­ast vegna barsmíða og glíma oft við þunglyndi, kvíða og áfallastreitu árum saman eftir ofbeldi. Þau þurfa að þola það að bera ör á líkama og sál alla ævi,“ segir hún.

„Þolendur ofbeldis þurfa oft að þola það að yfirgefa heimili sín. Heilu fjölskyldurnar eru sendar með lögreglufylgd í Kvennaathvarfið þar sem þau þurfa að dvelja jafnvel mánuðum saman, á meðan gerandi fær að sitja eftir heima. Þau þurfa að líta yfir öxl sína á leið í vinnu og skóla á meðan gerandi hringsólar þar í kring og sendir þeim jafnvel skilaboð um það á meðan.“

Hún segir að þolendur þurfi ítrekað að þola það að koma augliti til auglitis við gerendur sína. „Konur og börn þurfa oft að mæta körlum sem hafa beitt þau andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi og sitja undir ógnandi hegðun og hótunum í réttarsal, í umgengni, í foreldraviðtölum og ýmsum öðrum aðstæðum,“ segir hún.

Þá segir Elín að margir þolendur þurfi einnig að þola fátækt þar sem þeir þora oft ekki í vinnu af ótta við gerendur og missa svo vinnuna. „Gerendur hafa einnig oft stjórn á fjármálum þolenda sinna, auk þess sem þeir geta komið í veg fyrir það að þau fái fjárhagsaðstoð með því að neita að samþykkja skilnað,“ segir hún.

„Hinir raunverulegu þolendur“

Undir lokin segir Elín að þolendur hafi einnig þurft að þola það að vera útskúfað úr samfélagi sínu. „Margir þolendur finna fyrir óbeinum fordómum í umhverfi sínu eftir að hafa opinberað ofbeldi, en öðrum er bókstaflega bolað burt með undirskriftalistum eða beinum hótunum frá nærumhverfi sínu.“

Hún segir að við sem samfélag þurfum að komast að því hvernig við ætlum að taka á ofbeldi og hvernig eigi að aðstoða þolendur og gerendur í ofbeldismálum.

„En við megum ekki gleyma því hver eru hinir raunverulegu þolendur. Við megum ekki gleyma því hver hin útskúfuðu eru í raun og veru.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó
Fréttir
Í gær

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir