The Guardian segir að austurrísk yfirvöld hafi lengi reynt að binda enda á ólöglegan kappakstur og önnur form ofsaaksturs. Frumvarpinu er ætlað að taka á þessu vandamáli.
Leonore Gewessler, samgönguráðherra, sagði á fréttamannafundi að þegar ekið sé á svona miklum hraða hafi ökumenn ekki fulla stjórn á ökutækjum sínum. Ökutækin geti orðið stjórnlaus vopn sem ógna saklausu fólki.
Samkvæmt frumvarpinu þá verður hald lagt á ökutæki ökumanna sem aka á 110 km/klst eða þar yfir þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst og þeirra sem aka á 200 km/klst eða þar yfir þar sem leyfður hámarkshraði er 130 km/klst. Mun haldlagningin vara í allt að tvær vikur.
Ef um endurtekið brot er að ræða eða ef hraðinn er sérstaklega mikill fær ökumaðurinn ökutækið ekki aftur og það verður selt á uppboði.