Frenkie de Jong, leikmaður Hollands, er með engin ráð fyrir liðið sem spilar við Argentínu á föstudag.
De Jong var spurður hvort hann gæti hjálpað Hollandi að stöðva Lionel Messi á HM en því miður er fátt um svör þar.
Messi er einn allra besti leikmaður sögunnar og þekkir De Jong vel en þeir voru um tíma saman hjá Barcelona.
,,Nei. Ég þekki hann en ég veit ekki hvernig á að stöðva hann,“ sagði De Jong í samtali við blaðamenn.
,,Hann hefur gert gæfumuninn í 15 ár og það er engin ein leið til að stöðva hann. Hann gerir yfirleitt það sama á æfingum.“
,,Við þurfum bara að stöðva hann sem lið. Ég hef ekki verið í neinu sambandi við hann og það er ekki á dagskránni. Við hittumst á föstudaginn.“