Áhrifavaldurinn Kristján Einar Sigurbjörnsson birti mynd frá göngugeðdeild geðdeildar á Landspítalanum fyrr í dag. Hann er að sækja sér aðstoð eftir átta mánaða fangelsisvist á Spáni og segir réttilega að engin skömm sé fólgin í því að leita sér hjálpar.
Kristján hefur verið opinn um átta mánaða hryllingsvist sína í héraðsfangelsinu í Malaga eftir að hann losnaði úr varðhaldi um miðjan nóvember.
Sjá einnig: Kristján Einar sakaður um lygar – „Hvað sem þjóðin vill kalla það… Athyglissýki?“
Hann hefur einnig rætt hreinskilið og hispurslaust um andlegt ástand sitt, bæði á Instagram og í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar í lok nóvember.
„Ég veit ekki hvernig mér líður, ég veit ekki hvernig mér á að líða. Ég veit ekki hvernig ég á að hegða mér,“ sagði hann í þættinum aðspurður hvernig hann sé að vinna úr þessari reynslu.
Hann sagðist vera að taka fyrstu skrefin í að leita sér hjálpar en að hann óttaðist að skaðinn væri þegar skeður. „Þetta er skaði sem er kominn til að vera,“ sagði hann og bætti við að hann ætti í raun að láta leggja sig beint inn á geðdeild en hann væri vanur því að taka hlutina á kassann.
En nú hefur hann ákveðið að leita sér hjálpar og við óskum honum velfarnaðar á þessum erfiðu tímum.