Cristiano Ronaldo var nokkuð óvænt á bekknum í 6-1 sigri Portúgal á Sviss á Heimsmeistaramótinu í Katar í gær.
Leikurinn var liður í 16-liða úrslitum mótsins og Portúgal því komið í 8-liða úrslit.
Goncalo Ramos byrjaði í fremstu víglínu í fjarveru Ronaldo í gær og skoraði þrennu.
„Ótrúlegur dagur fyrir Portúgal. Söguleg úrslit í stærstu keppni í fótboltaheiminum. Þetta var gæðaframmistaða frá liðinu sem er fullt af hæfileikum. Það á að hrósa liðinu. Daumurinn lifir! Allt til enda! Koma svo Portúgal!“ skrifar Ronaldo á Instagram og virðist hæstánægður þrátt fyrir að hafa ekki verið í byrjunarliðinu.
Kappinn kom inn á þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks.
Portúgal mætir Marokkó í 8-liða úrslitum HM. Leikurinn fer fram á laugardag klukkan 15 að íslenskum tíma.