Sprotafyrirtækið Treble Technologies, sem þróar tækni til hljóðhönnunar, hefur safnað 8 milljónum evra eða að jafnvirði 1,2 milljarða króna. Þar af koma 5,5 milljónir evra frá fjárfestum og 2,5 milljónir evra er styrkur frá Evrópska nýsköpunarráðinu (European Innovation Council). Tæknin sem fyrirtækið þróar gerbyltir því hvernig hægt er að hanna hljóð og skapa hljóðupplifanir á breiðu sviði.
Frumtak leiddi fjármögnunarlotuna sem er á klakstigi (e. seed stage) í samstarfi við NOVA sem er nýsköpunararmur Saint-Gobain, sem er eitt af 500 stærstu fyrirtækjum heims og framleiðir byggingarefni, auk ýmissa englafjárfesta.
Treble þróar hugbúnað á sviði hljóðhermunar (e. sound simulation). Hann greinir og hannar hljóð í hverskyns þrívíddarmódelum og hefur því notagildi m.a. við hönnun bygginga, bíla, hljóðtæknibúnaðar og sýndarheima (e. metaverse). Tæknin, sem er einkaleyfisvarin, gerir notendum kleift að herma hljóð mun hraðar og nákvæmar en áður hefur verið hægt.
Tækni Treble getur nýst fjölmörgum atvinnugreinum. Fyrirtækið á þegar í samstarfi við fjölda fyrirtækja um allan heim sem nota tæknina, svo sem nokkur af stærstu tæknifyrirtækjum í heimi, stóra bílaframleiðendur og þekktar arkitektastofur s.s. Henning Larsen Architects, BIG Architects og verkfræðistofuna COWI. Þessi fyrirtæki eiga það öll sameiginlegt að hafa átt í erfiðleikum með að vinna með hljóð og sjá sér mikinn hag í að nota hljóðhermunartækni Treble.
„Á einungis tveimur árum hefur Treble tekist að þróa byltingakennda tækni og hafið samstarf við leiðandi tæknifyrirtæki á heimsvísu. Fjármögnunin gefur okkur færi á að hleypa af stokkunum tæknilausninni og efla hana. Stefnt er á að setja hana formlega í loftið snemma á næstu ári og fjölga starfsmönnum. Fólk áttar sig oft ekki á því áreiti sem hljóð skapar en rannsóknir sýna að það hefur mikil áhrif á heilsu okkar, framleiðni og getu okkar til að eiga samskipti. Tæknin okkar mun leiða til þess að heimurinn – hvort sem litið er til raunheima eða þess stafræna – muni hljóma betur og vera minna plagaður af hávaða. Hljóð er afar mikilvægt fyrir upplifun í sýndarheimum, en rannsóknir hafa sýnt að aukin hljómgæði þar hafa mikil áhrif á upplifun fólks, jafnvel meir en aukning í bættri grafík gefur. Treble stefnir á að leika stórt hlutverk í þróun hljóðs á þeim vettvangi,“ segir Dr. Finnur Pind, stofnandi og framkvæmdastjóri Treble.
„Okkur þykir tæknin sem Treble hefur þróað á skömmum tíma stórbrotin og mikill uppgangur fyrirtækisins á þessum stutta tíma afar eftirtektarverður. Við hlökkum til að styðja við frekari vöxt félagsins og útbreiðslu tækninnar sem getur nýst á fjöldamörgum sviðum. Mikilvægi góðrar hljóðhönnunar og hljóðvistar hefur verið vanmetið og tækilausnir á þessu sviði vantað. Möguleikar Treble eru gífurlegir og félagið er í lykilstöðu til að verða leiðandi á þessu sviði á heimsvísu,“ segir Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og meðeigandi hjá Frumtaki Ventures.
Treble Technologies hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar á stórum alþjóðlegum ráðstefnum. Á frumkvöðlaráðstefnunni Slush í Helsinski sem haldin var fyrir skemmstu vann Treble verðlaun fyrir bestu fjárfestakynningu Norður- og Eystrasaltslanda (New Nordic Pitch Competition). Á byggingaráðstefnunni BIM World Munich í fyrra hreppti fyrirtækið verðlaun fyrir bestu nýsköpunina í byggingariðnaði. Treble hlaut svo einnig verðlaunin Best New Tech á AEC Hackathon viðburðinum í Kaupmannahöfn í fyrra. Þá hefur félagið fengið styrki frá Tækniþróunarsjóði.