Leit hefst brátt að nýju að skipverjanum sem féll útbyrðis í Faxaflóa í gær. Bænamessa var í Grindavíkurkirkju í gærkvöld en maðurinn er búsettur þar. DV ræddi við Ragnar Rúnar Þorgeirsson sem er fyrrverandi stjúpfaðir mannsins, sem er af erlendu bergi brotinn.
Ragnar segir að bænastundin í Grindavíkurkirkju hafi verið mjög áhrifamikil. Hann lofar stjórn útgerðarfélagsins Vísis og forstjóra Samherja, Þorstein Má Baldvinsson, fyrir að hafa tekið þátt í messunni og sýnt samhug sinn.
„Það var smekkfull kirkja og mikið um faðmlög eftir messuna. Þetta var voðalega indælt. Það mættu allir í stjórninni hjá Vísi og sjálfur Samherjaforstjórinn kom líka. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim fyrir þetta,“ segir Ragnar.
„Svo eftir messuna fórum ég og strákarnir mínir heim til hans og tókum utan um konuna hans og fólkið þar,“ segir Ragnar en mikill samhugur er meðal Grindvíkinga vegna þessa sorglega atburðar. „Ég er sjómaður sjálfur og veit að hættan er alls staðar á sjónum og maður þarf að passa sig svakalega,“ segir Ragnar.
Ragnar segir fólk hafi kunnað mjög vel að meta þann samhug og þá virðingu sem stjórnendur útgerðarfélaganna Vísis og Samherja sýndu með því að vera viðstaddir messuna. „Þetta var alveg til fyrirmyndar hjá stjórninni og forstjóra Samherja og ég ber mikla virðingu fyrir þeim fyrir að hafa gert þetta.“
Sem fyrr segir heldur leitin að skipverjanum áfram í dag, hún hefst að nýju þegar birta tekur.