Á milli áranna 1971 og 1973 voru þrjár tíu og ellefu ára stúlkur myrtar í nálægum bæjum í Rochester sýslu í New York fylki í Bandaríkjunum. Morðin tengdust á afar sérkennilegan hátt þar sem allar höfðu telpurnar sömu upphafsstafi í fornafni og eftirnafni.
Fórnarlömbin hétu Carmen Colón, Wanda Walkowicz og Michelle Maenzaog og allar fundust þær nálægt bæjum sem höfðu sama upphafsstaf og viðkomandi stúlka.
Carmen Colon bjó í Churchville, Wanda Walkowicz í Webster og Michelle Maenza bjó bænum Macedon.
Ganga morðin enn undir nafninu Stafrófsmorðin.
Enginn hjálpaði hálfnöktu barninu
En þær áttu fleira sameiginlegt. Allar voru þær kaþólskar, fjölskyldur þeirra voru bláfátækar og allar áttu þær í erfiðleikum í skóla. Þær hurfu allar um eftirmiðdag. Þeim var öllum nauðgað, þær kyrktar og hent í skóglendi eða skurði rétt við bæjarmörkin án þess að nokkur tilraun væri gerð til að fela líkin.
Hin tíu ára gamla Carmen Colón þeirra fyrst. Þann 16. nóvember 1971 sást til lítillar stúlku hlaupandi meðfram fjölförnum vegi, veifandi örmum í örvæntingarfullri tilraun til að stöðva bíl. Hún var nakin neðan mittis og sást til bifreiðar bakka hratt í áttina til hennar. Um hundrað ökumenn sá stúlkuna en ekki einn einasti þeirra stöðvaði til að koma henni til hjálpar.
Að minnsta kosti einn ökumaður sá karlmann grípa litlu stúlkuna og neyða upp í hin sama bíl og hafði sést bakka en gerði ekkert.
Sá hringdi ekki einu sinni á lögreglu fyrr en eftir að lík hennar fannst.
Frændinn grunaður
Daginn sem Carmen hvarf hafði móðir hennar sent hana út í apótek sem aðeins var nokkrum hundruð metrum frá heimili hennar við smábæinn Churchville. Eftir að hafa afhent lyfseðilinn sagði hún apótekaranum að hún ætlað að hinkra við fyrir utan. Þegar ekki bólaði á stúlkunni að koma inn og sækja lyfið fór starfsmaður út að leita að henni en Carmen var hvergi að finna og hringdi því til foreldra hennar sem höfðu samband við lögreglu.
Á þessum árum gengu hlutirnir öllu hægar fyrir sig innan löggæslunnar en í dag og var ekki einu sinni farið að lýsa eftir henni þegar að lík hennar fannst tveimur dögum síðar. Lá hún nakin í uppþornuðum árfarvegi, ekki langt frá þar sem hún sást síðast á hlaupum.
Mikil áhersla var lögð á að finna morðingja Carmen. Biðlað var til fólks um upplýsingar á upplýsingaskiltum og í fjölmiðlum og 6000 dollurum heitið gegn upplýsingum sem leiddu til handtöku. En ekkert gekk að finna banamann Carmen litlu þrátt fyrir að lögreglu grunaði sterklega frænda hennar, dæmdan ofbeldismann, sem flúði til Puerto Rico rétt eftir morðið.
Wanda og búðingurinn
Einu og hálfi ári síðar var málið enn óleyst en þá gerðist nokkuð sem fyllti fólk miklum óhug.
Líkt og móðir Carmen hafði gert, sendi mamma hinnar 11 ára Wöndu Walkowicz dóttur sitt í matvörubúð, ekki langt frá heimilinu. Eftir að hafa greitt fyrir vörurnar gekk Wanda út úr versluninni rétt eftir klukkan 17 og sást aldrei framar á lífi.
Um klukkan 20 hafði skelfingu lostin móðir hennar samband við lögreglu og fannst lík Wöndu daginn eftir í vegkanti, ekki langt frá matvöruversluninni. Um var að ræða nálægan bæ við Churchville, Webster að nafni.
Við krufningu kom í ljós að Wanda hafði borðið búðing rétt fyrir andlátið. Búðingur hafði ekki verið að listanum yfir þau matvæli sem Wanda átti að kaupa inn og reyndar matur sem sem móðir hennar fullyrti að dóttir sín hefði aldrei látið inn fyrir sínar varir.
Svo virðist sem einhver hafi því hugsanlega neytt búðing ofan í telpuna fyrir morðið.
Og síðan Michelle
Það voru óhugnanleg líkindi með morðunum. Stúlkurnar voru svo að segja jafnaldrar, báðar höfðu þær skotist út í búð um eftirmiðdag og báðum hafði verið nauðgað og þær kyrktar.
Það fór heldur ekki fram hjá fólki að báða stúlkurnar höfðu haft sömu upphafsstafi í nöfnum sínum.
Íbúum í Rochester var afar brugðið og ábendingar hrönnuðust inn til lögreglu. Nokkrir sögðust hafa séð Wöndu stíga inn í ljósbrúnan bíla á bílastæði verslunarinnar en hvorki gekk né rak að finna finna morðingjann eða morðingjana.
Þann 26. nóvember 1973, rétt sléttum tveimur árum frá morðinu á Carmen og sjö mánuðum frá morði Wöndu, hvarf hin ellefu ára gamla Michelle Maenza. Var hún að ganga heim til sín frá verslunarmiðstöð. Aðeins um stuttan göngutúr var að ræða en Michelle skilaði sér aldrei heim.
Tveimur dögum síðar fannst lík hennar rétt utan við bæinn Macedon, einnig í Rochester.
Fjöldi vitna og ábendinga
Enn og aftur rigndi inn ábendingum. Tvær konur sögðust hafa séð Michelle fyrir utan hamborgarastað og við krufningu kom í ljós að reyndar hafði Michelle borðað hamborgara fyrir andlátið. Reyndar fullyrti eitt vitni að hafa sér grátandi stúlku sem líktist Michelle fyrir utan hamborgarastað í fylgd manns sem vitnið gat ekki lýst almennilega.
Eins og móðir Wöndu var móðir Michelle hissa. Sagði dóttur sína ekki hafa átt neina aura til hamborgarakaupa auk þess að vera ekki sérlega hrifin af þeim í þokkabót. Svo aftur kom spurningin? Neyddi einhver mat ofan í Michelle áður en hún var myrt?
Maður nokkur sagðist einnig hafa stoppaði til að bjóða ökumanni aðstoð en sá hafði lagt úti í vegkanti rétt við verslunarmiðstöðina með sprungið dekk. Sá afþakkaði hranalega og stóð fyrir framan númeraplötu bílsins, í því sem vitnið sagði síðar, augljósum tilgangi að fela númerið. Vitnið var nokkuð viss um að hafa séð stúlku sem líktist Michelle í farþegasætinu en bílstjórinn hefði sent henni svip sem virtist gera barnið það óttaslegið að hún faldi andlit sitt.
Vitnið sagði bílinn hafa verið ljósbrúnan og lýsti manninum í bílnum fyrir teiknara og var myndinni dreift víða. Enn og aftur barst fjöldi ábendinga og í margar vikur var farið yfir hverja einustu þeirra og fjöldi manna yfirheyrður. Ekki tókst þó að tengja neinn við morðið.
Einn eða fleiri að verki?
Lögreglan var þess fullviss að sami maður hefði myrt Wöndu Walkowicz og Michelle Maenza og hugsanlega Carmen Colón en þó voru margir efins.
Morðin á Wöndu og Michelle voru svo að segja nákvæmlega eins en ýmis smáatriði voru öðruvísi þegar kom að Carmen, þótt nákvæmlega hver þau hafi verið hafi aldrei verið gefið upp vegna rannsóknarhagsmuna.
Hvernig stóð á því að allar stúlkurnar voru jafn gamlar? Og verið myrtar á sama hátt? Var um furðulega tilviljun að ræða að þær höfðu sömu upphafsstafi og höfðu búið í bæjum með sömu upphafsstafi og nöfn þeirra? ? Eða var það lykillinn að gátunni?
Við rannsókn málsins komst lögregla að því að mikill fjöldi kynferðisglæpamanna og morðingja bjó í bæjum í Rochester en á þessum árum var engin samræmd skrá yfir slíkt til.
Hinir grunuðu
Slökkviliðsmaður að nafni Dennis Termini var um tíma undir grun en sá hafði nauðgað tólf stúlkum og ungum konum í bílskúr sínum. Þegar lögregla óskaði eftir yfirheyrslu skaut Termini sig.
Annar sem var sterklega grunaður var Joseph Naso sem hafði búið í Rochester áður en hann var dæmdur til dauða fyrir morð á sex konum, þar af fjórum sem höfðu einnig haft sömu upphafsstafi. Það þótti varla geta verið enn ein tilviljunin. En það fannst ekkert sem tengdi hann við morðin.
Lífsýni sem fannst á Wöndu Walkowicz og var rannsakað þegar að DNA tæknin kom til sögunnar útilokaði reyndar báða ofangreinda sem morðingjana en því miður varðveittust engin líffsýni af líkum Carmen og Michelle.
Það hefur aldrei neinn verið handtekinn fyrir morðin á telpunum þremur en enn þann dag í dag er gríðarlegur áhugi á málinu.
Sumir vilja meina að um einn morðingja hafi verið að ræða en aðrir telja að sami einstaklingur hafi myrt Michelle og Wanda en ekki Carmen. Frændi hennar hafi verið sá seki en morðingin hinna tveggja telpnanna hermt eftir til að koma sér undan grun.
Nú í sumar póstaði kona á TikTok að hún væri næstum viss um að afi hennar hafi myrt allar telpurnar þrjár. Sá hefði átt nákvæmlega eins brúnan bíl og Wanda sást í, hann hefði viðurkennt að þekkja Wöndu og hefði átt hvítan kött en hvít kattahár fundust á líkum allra telpnanna.
Hún sagði afa sinn einnig hafa haft allt að því sjúklegan áhuga á málunum og safnað úrklippum um morðin.
En afi TikTokkarans er látinn og því engin leið að sanna eða afsanna kenningu barnabarnsins enda lífsýni Wöndu nú ónýtt sökum aldurs.
Fleiri spurningar en svör
Enn þann dag í dag eru mun fleiri spurningar en svör um Stafrófsmorðin.
Var um sama morðingja að ræða? Voru tengsl bókstafanna tilviljun eða einhver furðuleg þráhyggja truflaðs morðingja? Var einn af þeim fjölmörgu aðilum sem yfirheyrðir voru ef til morðinginn eftir allt saman? Flestir voru þeir grunuðu látnir taka lygamælispróf, og stóðust þau. en þau þykja það óáreiðanleg í dag að þau eru ekki tekin gild fyrir rétti. Á þessum árum var þó tekið mun meira mark á þeim.
Er það ef til vill rétt sem marga lögreglumenn grunaði á sínum tíma, að sami einstaklingur hefði myrt Wöndu og Michelle en frændi Carmen hafi verið sekur um morðið á litlu frænku sinni?
Og síðast en ekki síst. Af hverju hættu morðin? Fjöldamorðingjar hætta sjaldnast af sjálfsdáðum. Dó morðinginn? Fór hann í fangelsi? Flutti hann og myrti fleiri stúlkubörn, ef til vill á annan hátt svo aldrei fundust nein tengsl við önnur morð?
Stafrófsmorðin eru því enn óleyst en langt frá því að vera gleymd.