fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Vilhjálmur sorgmæddur og dapur eftir að vera „stunginn í bakið“

Eyjan
Sunnudaginn 4. desember 2022 17:56

Vilhjálmur Birgisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist vera sorgmæddur og dapur yfir ummælum frá aðilum sem hann taldi vera góða vini sína í dag og í gær um kjarasamning sem Starfsgreinasambandið gerði við Samtök atvinnulífsins. Hann segir að sá samningur sem var gerður sé sá langbesti sem hann hafi komið að á sínum 20 árum sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni hvað verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði varðar.

Þetta kemur fram í langri færslu á Facebook rétt í þessu.

„Eins og allir vita undirrituðu 17 aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands í gær nýjan kjarasamning fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.

Áður en ég fer ýtarlega yfir forsendur og hvað kjarasamningurinn er að skila verkafólki sem tekur laun eftir kauptöxtum vil ég þó segja að þessi stutti skammtímasamningur er sá langbesti sem ég hef komið að á mínum 20 árum sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni, hvað verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði varðar. Það er staðreynd sem enginn getur andmælt!“

Mikilvægt að fá hagvaxtaraukann inn strax

Vilhjálmur segir að Starfsgreinasambandið (SGS) hafi lagt mikla áherslu á að ná nýjum samningi hratt og vel til að fá launahækkanir í gegn sem fyrst. Aldrei á hans tíma í forystu í verkalýðshreyfingunni hafi það tekist áður að nýr samningur taki við af þeim sem var að renna út, en öll bið milli samninga séu í reynd tjón fyrir verkafólk. Það hafi einnig verið mat SGS að lágtekjufólk gæti ekki beðið eftir launahækkunum vegna þeirra kostnaðarhækkana sem hafa dunið yfir undanfarið.

Samningurinn byggist á krónutöluhækkunum sem komi sér best fyrir lágtekjufólk. Hagvaxtaraukinn muni svo skila 13 þúsund króna hækkun strax í stað þess að hann komi ekki til framkvæmda fyrr en í maí á næsta ári.

„Takið eftir að nánast allir launaflokkar innan SGS þar sem fólk er með fimm ára starfsreynslu eru að hækka um 40 þúsund á mánuði án hagvaxtarauka og frá 50.000 kr. upp í 52.000 kr. með flýttum hagvaxtarauka. Hvenær hafa svona launahækkanir komið til lágtekjufólks, mitt svar er skýrt – aldrei!

Kauptaxtar verkafólks eru að meðaltali með breytingu á launatöflunni og flýttum hagvaxtarauka að skila 43.000 kr. hækkun á mánuði og ég spyr aftur – hvenær hafa svona hækkanir komið handa verkafólki? Enn og aftur skal ég svara, aldrei!“

Sorgmæddur og dapur með ummæli Sólveigar og Ragnars

SGS er stolt af árangrinum af þeirri hörðu vinnu sem liggur að baki kjarasamningnum. Þess vegna hryggir það Vilhjálm að sjá ummæli frá aðilum sem hann taldi vera vini sína tala samninginn niður og vísar Vilhjálmur þar líklegast til Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, sem hefur sagt samninginn hafa valdið sér vonbrigðum og geti ekki talist ásættanlegur fyrir Eflingarfólk að nokkru leyti. Eins er hann að líkindum að vísa til Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, sem sagði samning SGS veikja stöðu VR gagnvart stjórnvöldum og samningurinn sé vonbrigði.

Vilhjálmur segir:

„Ég skal fúslega viðurkenna að ég er sorgmæddur og dapur að sjá fólk sem ég taldi vera góða vini mína stinga mig í bakið með því að segja að ég hafi nánast framið „glæp“ með þessum samningi. Samningi sem gildir í rétt rúmt ár með launahækkunum til þeirra sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði, hækkunum sem ekki eiga sér hliðstæðu hvað verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði varðar.

Formaður Eflingar sem hefur m.a. gagnrýnt þennan kjarasamning harðlega hefur sagt að lífskjarasamningurinn frá 2019 hafi verið mjög góður og þar erum við sammála. Í ljósi þeirra ummæla formanns Eflingar skil ég ekki þessa gagnrýni á nýjan samning SGS sem inniheldur á þessum stutta samningstíma mun meiri launahækkanir en fengust í lífskjarasamningnum.“

Hvaða tilgangur var annar en að eyðileggja?

Vilhjálmur bendir á að það hafi verið Efling sem ákvað að vera eitt á báti í samningaviðræðunum og skila ekki samningsumboði til SGS. Vilhjálmur hafi þó haldið Sólveigu Önnu upplýstri allan tímann um hvað SGS væri að gera.

„Ég veit hins vegar að upplýsingum var lekið til fjölmiðla meðan viðræður okkar voru á viðkvæmu stigi og markmiðið getur ekki hafa verið annað en að skemma þá vinnu sem við vorum að vinna að og afvegaleiða það sem verið var að semja um. Ég veit líka að haft var samband við allavega tvo formenn innan SGS og þeir beðnir um að skrifa ekki undir nýjan samning. Hvað var tilgangurinn annar en bara að eyðileggja það sem við vorum að gera. Það lág fyrir að öll aðildarfélög sem höfðu skilað umboði til félagsins voru yfirsig ánægð með innihaldið og kom fram á formannafundi að þau hafðu ekki séð svona launahækkanir til handa verkafólki. Ég sem formaður samninganefndar SGS fékk fullt umboð frá öllum um að ganga frá þessum samningi og því kom það á óvart að sjá að annað af þessum aðildarfélögum sem haft var samband við dró umboð sitt til baka.“

Það hafi verið réttur Eflingar að kjósa að vera ekki í samfloti með SGS og Vilhjálmur virðir þá ákvörðun og því sér sorglegt að sjá Sólveigu gagnrýna þá niðurstöðu sem SGS komst að.

Stéttarfélög eru ekki að semja við sig sjálf

„Það er einnig mikilvægt fyrir alla sem ekki þekkja til kjarasamningsgerðar að stéttarfélögin eru ekki að semja við sig sjálf. Við erum með viðsemjanda sem er í þessu tilfelli Samtök atvinnulífsins og ef fólk heldur að það sé auðvelt að semja við Halldór Benjamín og hans fólk þá veður fólk villu vegar.“

Samningaviðræður snúist um málamiðlanir og sé það ekki svo að stéttarfélag geti gengið út og fengið öllum sínum kröfum mætt.

„Báðir aðilar ná aldrei öllum sínum kröfum fram og mjög algengt er að það sé á bilinu 50 til 70% sem næst fram. Það ber að skoða kröfugerð Eflingar í ljósi þessara staðreynda, ekki nema fólk telji að allt sem lagt er fram náist í gegn. Slíkt hefur aldrei gerst því þá eru þetta ekki samningaviðræður. Þetta er staðreynd sem ég hef lært á mínum ferli og mikilvægt að allir átti sig á þessu.“

Hefði ekki skrifað undir ef samningurinn væri ekki góður

Allir sem þekki Vilhjálm viti að hann hefði ekki skrifað undir samning sem hann teldi ekki vera góðan fyrir verkafólk.

„Ég þekki það af eigin raun eftir hafa starfað sem verkamaður í tugi ára hvernig það er að taka laun eftir lágum kauptöxtum og eiga ekki fyrir nauðþurftum í lok mánaðar. Ég hef upplifað þetta eftir að hafa átt fjögur börn, vera eina fyrirvinnan á mínu heimili og starfa sem verkamaður.

Það er hægt að saka mig um allt annað en að taka ekki þessa ábyrgð gríðarlega alvarlega, enda finn ég innilega til með fólki sem ekki nær endum saman frá mánuði til mánaðar. Ég hef áður sagt að það er lýðheilsumál að tryggja lágtekjufólki framfærslu sem dugar frá mánuði til mánaðar og það geti haldið mannlegri reisn.“

Að lagfæra kjör verkafólks sé eilífðarverkefni en með þessum framlengda lífskjarasamningi hafi enn eitt skrefið verið tekið í slíkri kjarabót.

„Eins og áður sagði er það eilífðarverkefni lagfæra kjör verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði og í þessum framlengda lífskjarasamningi var stigið enn eitt skrefið í átt til þess. Og það á svo sannarlega eftir að stíga enn fleiri skref í þeirri lífskjarabaráttu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast