Forstjóri Twitter, auðkýfingurinn Elon Musk, telur verulegar líkur á því að einhver reyni að ráða hann af dögum. Þetta kom fram í tveggja tíma löngu „spurt og svarað“ eða Q&A sem hann var með á Twitter.
Þar fór hann um víðan völl og tók fram að það væru frekar miklar líkur á því að tilræði verði gert við líf hans og tók hann fram að hann sé ekki að fara í neinar skrúðgöngur undir berum himni á næstunni, en þar vísaði hann til þess er fyrrum Bandaríkjaforseti, John F. Kennedy var myrtur í nóvember árið 1963.
„Í hreinskilni þá eru líkurnar á því að eitthvað komi fyrir mig, eða að ég verði bókstaflega skotinn, frekar miklar,“ sagði Musk.
„Það er ekki það erfitt að drepa einhvern ef maður vill það, svo vonandi gerir fólk það ekki og vonandi brosa örlögin við mér og ég slepp við þetta. Það er klárlega hætta þarna.“
Musk segist helst af öllu vonast til framtíðar þar sem fólk er ekki kúgað og geti sagt það sem það vill án ótta við afleiðingar.
„Svo lengi sem þú ert ekki að valda öðrum skaða þá ættir þú að mega segja hvað sem er.“