Ekkert saknæmt átti sér stað varðandi hvarf Friðfinns Freys Kristinssonar, sem leitað hefur verið að síðustu vikur. Hann stakk sér til sunds og synti út í algleymið. Þetta kemur fram í færslu á samfélagsmiðlum frá bróður hans, Kolbeini Karli Kristinssyni, sem DV fékk góðfúslegt leyfi til að birta.
„Við vorum hjá lögreglunni í dag sem hefur tekið saman öll myndbönd sem til eru af Friðfinni daginn örlagaríka og þar í kring. Við vitum því nú loksins fyrir víst að sundmaðurinn sjálfur stakk sér til sunds og synti á lygnum sjó í fallegu veðri út í algleymið. Ekkert saknæmt átti sér stað og Friðfinnur hefur loksins fundið frið,“ skrifar Kolbeinn Karl.
Hann segir ennfremur að leitinni að Friðfinni sé ekki lokið en að þessum kafla óvissunar sé samt lokið og það veiti fjölskyldunni ákveðna ró.
„Við þökkum fyrir þann ómetanlega stuðning sem við höfum fengið og höldum áfram í vonina um að hann finnist,“ skrifar Kolbeinn Karl.