Helgi Seljan, blaðamaður á Stundinni, settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó, sem sýnd er á Hringbraut á föstudögum. Þar var einnig Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs.
Myndbandsdómgæslan, VAR, er gjarnan á milli tannana á fólki og það hefur hún verið á Heimsmeistaramótinu í Katar.
Þetta var tekið fyrir í þættinum. Vítið sem Lionel Messi fékk gegn Póllandi á dögunum var tekið sem dæmi.
„Það er hægt að dæma víti orðið á allan andskotann ef þú ferð í VAR og finnur snertinguna. Hversu oft hefur maður sér svona gerast og ekkert dæmt. Samkvæmt laganna bókstaf er þetta rétt en ég var ekki sáttur með þetta,“ segir Hörður.
Helgi er ekki mjög hrifinn af VAR.
„Ég held að menn hafi ekki alveg hugsað þetta til enda. Eins og með þetta rangstöðulínu, þú ert kominn með einhverja línu og verður að fylgja henni.“