Helgi Seljan, blaðamaður á Stundinni, settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó, sem sýnd er á Hringbraut á föstudögum. Þar var einnig Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í ár fer fram í Katar. Fer það fram nú yfir veturinn þar sem of heitt er að spila þar á sumrin.
„Að mörgu leyti er þetta frábær tími,“ segir Helgi.
Hörður tók í sama streng. „Maður er ekki að fara í ferðalag hingað eða þangað. Það eru allir bara heima hjá sér.
Miðað við lestrartölur á íþróttamiðlum er áhuginn gígantískur. Á þessum vinnustað, sem telur um 80 manns, eru allir að kíkja á sjónvarpið.“
Helgi telur þó að tímasetningin á HM í Katar geti einnig valdið usla.
„Eftir því sem teygist meira inn á aðventuna getur þetta valdið árekstrum inn á heimilunum.“