Paralympic-dagurinn 2022 verður haldinn í Laugardagshöllinni á laugardaginn og hefst dagskráin kl. 13. Um er að ræða stóra kynningu á íþróttastarfi fatlaðra á Íslandi.
Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra, segir um þetta í veftímariti sambandsins:
„Þá er loks komið að því eftir Covid viðburðatakmarkanir að við getum haldið Paralympic daginn. Dagurinn er nú sem hingað til helgaður kynningu á íþróttagreinum sem stundaðar eru innan vébanda Íþróttasambands fatlaðra. Íþróttanefndir ÍF, aðildarfélög ÍF og samstarfsaðilar sambandsins koma saman í frjálsíþróttahúsinu í Laugardal, sem tengt er Laugardalshöll, til að kynna íþróttagreinar og starfsemi íþróttafélaga fatlaðra. Samstarfsaðilar ÍF verða með kynningar og boðið er upp á veitingar í boði Toyota á Íslandi. Einnig verða drykkir í boði Coke á Íslandi.
Markmiðið með deginum er að auka þátttöku í íþróttum fatlaðra. Markhópurinn eru fatlaðir einstaklingar og eru fjölskyldur fatlaðra barna og ungmenna sérstaklega hvattar til að koma á staðinn til að kynna sér íþróttir sem í boði eru og átta sig á framboðinu, eða fjölbreytileikanum sem í boði er hér á landi.“